½ Leikstjóri: Kari Skogland. Handrit: John Franklin og Tim Sulka. Aðalhlutverk: Stacy Keach, Nancy Allen og Natalie Ramsey. (92 mín.) Bandaríkin, 1999. Skífan. Bönnuð innan 16 ára.

LIÐIN eru rúm fimmtán ár frá því að kvikmynd var gerð eftir sögu Stephens King um Börnin á kornakrinum. Það er hreint ótrúlegt hvað reynt er að moða úr þessari einu smásögu, en hér er komin sjötta myndin í röðinni. Það er svo sem fátt um myndina að segja, hún er greinilega ekki sú síðasta í röðinni, þar sem endirinn er mjög opinn fyrir framhaldi. Leikstjórinn virðist þó metnaðarfullur og nær að skapa nokkuð skuggalegt andrúmsloft með listrænum tilburðum. Gert er út á óhugnaðinn úr upprunalegu sögunni, það glittir í ljái og börn innan um kornstöngla og spámaðurinn Ísak rís úr dái. Annars virðist ætlast til að menn hafi séð alla súpuna því söguþráður myndarinnar er losaralegur og almennt mjög óskiljanlegur. Satt að segja er þetta hin undarlegasta kvikmynd.

Heiða Jóhannsdóttir