Í FJÖLBRAUTASKÓLA Suðurlands á Selfossi verður opnuð sýningin Nítján, tuttugu á sunnudag kl. 14.
Í FJÖLBRAUTASKÓLA Suðurlands á Selfossi verður opnuð sýningin Nítján, tuttugu á sunnudag kl. 14. Sýningin er unnin af nemendum skólans og er hluti af norrænu samstarfsverkefni, Framtíðarsýn á vegamótum (Framtidsvisioner - Vägval), sem Fjölbrautaskóli Suðurlands og Þjóðminjasafn Íslands taka þátt í. Aðrir þátttakendur eru Mönsterås gymnasium í Svíþjóð, Kalmar länsmuseum í Kalmar í Svíþjóð, Aboa vetus Ars nova-safnið í Turku í Finnlandi og Hertig Johanns gymnasium í Turku. Markmið verkefnisins er að nemendur athugi með ýmsum aðferðum líf fólks á tímamótum í sögunni og geri sér útfrá því hugmyndir um framtíðina á þeim tímamótum sem við stöndum nú á. Íslenski hluti verkefnisins snerist um þrenn tímamót, tímabilin kringum 1000, 1900 og 2000. Á sýningunni eru bornir saman ýmsir þættir mannlífsins um aldamótin 1900 og aldamótin 2000, t.d. fíkniefni, lækningatæki, líf rithöfunda, líf letingja o.fl. Einnig gefur að líta myndbönd sem nemendur hafa gert.