BÆJARFULLTRÚAR Samfylkingarinnar í Hafnarfirði segja að með samningi um sameiningu slökkviliðanna á höfuðborgarsvæðinu sé gengið þvert á þá meginstefnu sveitarfélaganna í landinu að færa þjónustuna nær íbúunum og að stefnt sé að því að gera bæinn að...

BÆJARFULLTRÚAR Samfylkingarinnar í Hafnarfirði segja að með samningi um sameiningu slökkviliðanna á höfuðborgarsvæðinu sé gengið þvert á þá meginstefnu sveitarfélaganna í landinu að færa þjónustuna nær íbúunum og að stefnt sé að því að gera bæinn að áhrifasnauðu úthverfi. Þetta kemur fram í bókun Samfylkingarinnar á bæjarstjórnarfundi sl. þriðjudag við afgreiðslu á drögum að stofnsamningi um sameinað slökkvilið á höfuðborgarsvæðinu.

Í bókuninni kemur fram það álit bæjarfulltrúa Samfylkingarinnar að enginn sparnaður verði með sameiningunni og að líklega muni draga úr öryggi Hafnfirðinga í brunamálum. Bæjarfulltrúar minnihlutans halda því fram að fulltrúar meirihluta Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks séu með samningnum að skjóta sér undan ábyrgð á veigamiklum öryggisþætti í bænum.

"Íbúarnir geta ekki lengur sótt með umkvartanir eða ábendingar varðandi þennan málaflokk til sinna lýðræðislega kjörnu bæjarfulltrúa. Heldur eiga þeir allt sitt undir borgarstjóranum í Reykjavík sem hefur ekkert umboð frá hafnfirskum kjósendum og þarf ekkert undir þá að sækja. Hætt er við að upp renni tími hafnfirskra bónarbréfa og betligangna til borgarstjórans í Reykjavík," segir í bókuninni.

Jafnframt segir í bókuninni að líta megi á samninginn í víðara samhengi sem lið í að gera bæinn að áhrifasnauðu úthverfi, "þ.e. "Grafarvogsvæðingu" Hafnarfjarðar." Þá segir einnig að sjálfstæðismenn láti "höfuðborgina vaða yfir sig á skítugum skónum" og að meirihlutinn sé "á bullandi flótta frá flestum þeim viðfangsefnum og verkefnum sem ætluð eru sveitarstjórnum."

Samfylkingarmennirnir benda á að samkvæmt samningunum fari Reykjavíkurborg með meirihlutavald í sameinuðu slökkviliði, eða 64% af atkvæðum. Einnig sé bundið í samningnum að stærsta sveitarfélagið fari með formennsku í stjórn byggðasamlagsins.

"Þá er fyrir stofnun byggðasamlagsins búið að ráða slökkviliðsstjóra og varaslökkviliðsstjóra slökkviliðs Reykjavíkur áfram í þær stöður án auglýsingar á þessum toppstjórnarstöðum. Það er afar óeðlilegt. Í reynd virðist því hér vera um yfirtöku Reykjavíkurborgar á Slökkviliði Hafnarfjarðar að ræða en ekki sameiningu," segir í bókuninni.