FJÁRHAGSAÐSTOÐ á vegum Akureyrarbæjar hækkaði um 63% á fyrstu fjórum mánuðum þessa árs miðað við sama tíma á síðasta ári. Aðstoðin er 23% hærri nú þegar miðað er við árið 1998.

FJÁRHAGSAÐSTOÐ á vegum Akureyrarbæjar hækkaði um 63% á fyrstu fjórum mánuðum þessa árs miðað við sama tíma á síðasta ári. Aðstoðin er 23% hærri nú þegar miðað er við árið 1998.

Oktavía Jóhannesdóttir, formaður félagsmálaráðs, sagði fjárhagsaðstoð rokka mikið milli mánaða og ekki kæmi í ljós fyrr en þegar árið yrði gert upp í heild hvort og þá hver hækkunin yrði. Hún sagði að ekki væri nákvæmlega vitað hverju þessi hækkun nú sætti. Alls lágu 73 umsóknir um fjárhagsaðstoð fyrir í síðasta mánuði og voru veittir 58 styrkir að upphæði rúmlega 1,5 milljónir króna auk þess sem veitt voru 5 lán að upphæð rúmlega 150 þúsund krónur.

Oktavía sagði að ævinlega leituðu fleiri aðstoðar en vant væri í kringum fermingar, páska og jól. "Þeir sem eru á lægstu bótunum hafa ekkert svigrúm til að mæta kostnaði umfram það vanalega," sagði Oktavía. Hún nefndi að flestir hefðu það nokkuð gott um þessar mundir, en þó væri nokkur hópur fólks sem sæti eftir. Ekki væri um að ræða stóran hóp, en hann ætti ekki margra kosta völ.