Kristjana M. Kristjánsdóttir, skólastjóri Grandaskóla.
Kristjana M. Kristjánsdóttir, skólastjóri Grandaskóla.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
TÖLVUR eru notaðar við kennslu í nær öllum námsgreinum í öllum bekkjardeildum Grandaskóla.

TÖLVUR eru notaðar við kennslu í nær öllum námsgreinum í öllum bekkjardeildum Grandaskóla.

Nemendur venjast því þannig strax í upphafi skólagöngunnar að tölvur séu sjálfsögð hjálpartæki í náminu og öðlast jafnframt fljótt færni á tölvurnar enda eru "börnin svo fljót að tileinka sér þessa nýju tækni og fljótari oft á tíðum en við," eins og Kristjana M. Kristjánsdóttir, skólastjóri Grandaskóla, kemst að orði.

Haustið 1998 var Grandaskóli valinn af Fræðslumiðstöð Reykjavíkur til að gegna hlutverki móðurskóla í tölvu- og upplýsingatækni í Reykjavík. Samkvæmt móðurskólaverkefninu er hlutverk skólans að vera frumkvöðull á þessu sviði í uppbyggingu náms og honum er ætlað að veita öðrum skólum ráðgjöf í þessum málaflokki byggða á þeirri reynslu sem hlýst af vinnunni innan skólans. Með þessu verkefni hafa tölvur verið notaðar í síauknum mæli í kennslu í nær öllum námsgreinum.

Nemendur semja eigin tónlist með tónlistarforriti

Kristjana segir að þau líti þannig á að ekki sé verið að kenna nemendum á tölvur, heldur sé verið að kenna með tölvum. Tölvurnar séu þannig fyrst og fremst kennslutæki sem nýtist nemendum í því sem fengist er við í hverri námsgrein, líkt og bókin var áður.

"Við leggjum áherslu á að byrja strax og erum með sérstaka námskrá fyrir hvern bekk þar sem því er lýst hvernig unnið er með tölvum í nánast öllum fögum. Hvort sem það er íslenska, stærðfræði, samfélagsfræði, tónmennt, myndmennt eða annað þá sýnum við þeim að tölvan getur verið hjálpartæki og leið til fróðleiks, alveg nákvæmlega eins og bókin," segir Kristjana.

Tölvur eru notaðar mikið í tónmenntakennslu og nota nemendur í sjöunda bekk tónlistarforrit þar sem þeir semja eigin tónlist. Þórdís Guðmundsdóttir tónmenntakennari segir nemendurna mjög duglega við tónsmíðarnar enda séu þeir flestallir komnir með góðan grunn í tónmennt og geti þar af leiðandi prófað sig áfram til dæmis með að búa til laglínur ofan á hljóma sem tölvan gefur þeim. Þórdís segir áhugann og einbeitinguna skína úr augum þeirra þegar þau sitja með heyrnatól hvert við sína tölvu sem tengd er hljómborði, og setja saman hin ýmsu hljóð og búa til eigin lög.

Forritið Photo shop notað í myndmenntarkennslu

Myndmenntakennslan er einnig orðin nokkuð tölvuvædd og hefur Björn Sigurðsson myndmenntakennari meðal annars kennt nemendum að nota forritið Photo shop, til dæmis við að búa til myndir, breyta myndum og skeyta myndir saman. Verkefnin þeirra eru mörg sett inn á Netið og er hægt að skoða þau á heimasíðu skólans, www.grandaskoli.is. Þar er meðal annars að finna verkefnið "Frá kálfskinni á stafrænt form" sem eru myndir sem nemendur í sjötta bekk unnu í Photo shop upp úr myndskreytingum úr handritum sem þeir höfðu farið að skoða í Árnastofnun. Einnig er hægt að sjá verkefni sjöundu bekkinga "Louisa og götulífsmyndir", þar sem nemendur höfðu meðal annars tekið ljósmyndir í nágrenni skólans og unnið þær í Photo shop þannig að þær líktust myndum Louisu Matthíasdóttur.

Einnig eru nemendur þátttakendur í Comenius-verkefninu, sem er hluti af Sókrates-áætluninni, þar sem höfð eru samskipti og samvinna, með milligöngu tölva, við nemendur í öðrum löndum.

Kristjana segist oft dást að því hversu færir nemendurnir séu orðnir á tölvurnar. Til dæmis séu nemendur í sjöunda bekk fullfærir um að setja heimildarritgerðir upp í tölvu og setja inn myndir og fleira og segir hún að þetta sé jafn eðlilegt fyrir þeim og það að skrifa á blað var fyrir tíu árum. Hún segir að mörg verkefni, ritgerðir, myndir og fleira, séu sett inn á Netið og það telur hún mjög af hinu góða.

"Við setjum alltaf meira og meira inn á Netið, þannig að heimilin geti líka séð það sem við erum að vinna. Við höfum fengið mjög góð viðbrögð frá foreldrum sem fylgjast margir vel með heimasíðunni okkar og fá að sjá það sem krakkarnir eru að gera hér í skólanum," segir Kristjana.