VIÐBRÖGÐ stjórnmálamanna og fjölmiðla í Rússlandi við tillögum Vladímírs Pútíns forseta um breytingar á stjórnkerfinu til að efla ríkisvaldið voru blendin í gær.

VIÐBRÖGÐ stjórnmálamanna og fjölmiðla í Rússlandi við tillögum Vladímírs Pútíns forseta um breytingar á stjórnkerfinu til að efla ríkisvaldið voru blendin í gær. Nokkrir fjölmiðlanna vöruðu við því að tillögurnar gætu orðið til þess að forsetinn fengi alræðisvald.

Pútín leggur m.a. til að gerðar verði breytingar á Sambandsráðinu, efri deild þingsins, sem er nú skipað héraðsstjórum og forsetum héraðsþinganna. Forsetinn vill að hvert héraðanna 89 eigi tvo fulltrúa í þingdeildinni eins og verið hefur en leggur til að þeir verði á þinginu í fullu starfi. Í tillögunum er gert ráð fyrir því að héraðsstjórarnir og þing héraðanna skipi þingmennina.

Forsetinn vill einnig fá vald til að víkja héraðsstjórunum úr embætti og leysa upp þing héraðanna ef þau brjóta stjórnarskrá Rússlands.

Pútín skýrði frá tillögunum í sjónvarpsávarpi í fyrradag og þær eru liður í tilraunum hans til að styrkja tök rússneska ríkisvaldsins á héruðunum.

Héraðsstjórarnir hafa fengið mikil völd frá því að Sovétríkin leystust upp. Mörg héraðanna hafa sett lög sem ganga í berhögg við rússnesku stjórnarskrána og nokkrir héraðsstjóranna hafa stjórnað héruðum sínum líkt og alráðir konungar, kveðið niður alla andstöðu og virt mannréttindi að vettugi.

"Setja verður þessi lög til að minna alla á að Rússland er sambandsríki, ekki ríkjasamband þar sem héruðin hafa næstum ótakmörkuð réttindi," sagði Gennadí Seleznjov, forseti dúmunnar, neðri deildar þingsins.

Báðar þingdeildirnar þurfa að samþykkja tillögurnar og Seleznjov sagði að þær myndu að öllum líkindum mæta harðri andstöðu nokkurra héraðsstjóra.

"Þetta er tilraun til að stjórna öllu frá Moskvu, afturhvarf til vafasamrar iðju miðstjórnar [sovéska] kommúnistaflokksins," sagði Rúslan Aushev, leiðtogi Ingúsetíu. "Þessar tillögur eru til marks um vantraust á því fólki sem kaus leiðtoga héraðanna. Enginn hefur rétt til að reka leiðtoga sem almenningur kýs."

Nokkur dagblaðanna vöruðu við því að tilraunin til að efla ríkisvaldið kynni að ganga út í öfgar og forsetinn kynni að fá alræðisvald í landinu.

Frjálslyndir þingmenn í dúmunni sögðust styðja margar af tillögum Pútíns en efuðust um að rétt væri að veita forsetanum vald til að víkja kjörnum héraðsstjórum úr embætti. Samkvæmt tillögunum fá héraðsstjórarnir einnig vald til að reka borgarstjóra gerist þeir brotlegir við lög.

Nýr fjármálaráðherra skipaður

Pútín skipaði í gær Alexei Kúdrín, sem hefur verið aðstoðarfjármálaráðherra, í embætti fjármálaráðherra og aðstoðarforsætisráðherra. Kúdrín er 39 ára hagfræðingur, aðhyllist markaðsumbætur og er frá Sankti Pétursborg eins og Pútín.

Moskvu. AP, Reuters, AFP.