LEIFTURSMENN þökkuðu sínum sæla í morgun fyrir að þeir skyldu eiga útileik í 1. umferðinni. Þegar þeir vöknuðu var ökkladjúpur snjór yfir öllu á Ólafsfirði og ljóst að þar hefði enginn leikur farið fram þrátt fyrir góða tíð að undanförnu og græna velli.
LEIFTURSMENN þökkuðu sínum sæla í morgun fyrir að þeir skyldu eiga útileik í 1. umferðinni. Þegar þeir vöknuðu var ökkladjúpur snjór yfir öllu á Ólafsfirði og ljóst að þar hefði enginn leikur farið fram þrátt fyrir góða tíð að undanförnu og græna velli.

HÖRÐUR Már Magnússon er ekki tilbúinn í slaginn með Leiftursmönnum eftir uppskurð í vetur og verður heldur ekki með gegn Fylki á mánudag. Til stóð að hann léki sem lánsmaður með Dalvík gegn Skallagrími í 1. deildinni í kvöld en af því varð ekki.

ALEXANDER Högnason , fyrirliði ÍA í fyrra, tók út leikbann og var í vinnunni á meðan leikurinn fór fram. Hann er nefnilega vallarstjóri á Akranesvelli .

BALDU R Aðalsteinsson hjá ÍA skoraði sitt fyrsta mark í úrvalsdeildinni. Þess má geta að hann er sonur Aðalsteins Baldurssonar , verkalýðsforingja á Húsavík .

SKAGAMENN eru þegar komnir með jafnmörg stig og þeir fengu í fyrstu fimm leikjunum á síðasta tímabili.

LEIFTUR náði ekki að skora á Akranesi fimmta árið í röð. Þetta var annar 1:0 sigur ÍA á þeim tíma en hinir þrír leikirnir enduðu 0:0.

FIMM færeyskir landsliðsmenn léku á Akranesi í gærkvöldi. Uni Arge með ÍA og Jens Martin Knudsen, Sámal Joensen, Jens Erik Rasmussen og John Petersen með Leiftri .

KEFLVÍKINGAR mættu snyrtilegir til leiks í gær, allir í gráum jakkafötum, svartri skyrtu og með grátt bindi. Klæðnaðinn fékk liðið hjá Ágústi Ármann í Reykjavík .

FRÍTT var fyrir konur á völlinn í Keflavík í gærkvöldi. Af þeim tæplega 500 áhorfendum sem sáu leikinn voru um 70 konur sem nýttu sér tilboðið.

GUÐMUNDUR Steinarsson skoraði fyrsta mark deildarinnar en þetta var 30. leikur hans í deildinni og fjórða markið sem hann gerir.