Hófleysið, sem einkennir þessi hátíðarhöld, er birtingarform sama menningarskortsins og mótar "neysluæðið".

Tölurnar verða sífellt ógnvænlegri. Þeir, sem muna hörmungar íslenskrar efnahagsstjórnunar, hverfa í huganum aftur í tímann, þegar sífellt bárust nýjar og skelfilegri tölur. Þá var það verðbólgan, sem æddi áfram stjórnlaust, þannig að ráðlegast var að eyða öllu, áður en peningarnir yrðu verðlausir. Nú eru það skuldir heimilanna, sem þenjast út líkt og verðbólgupúkinn forðum, með tilheyrandi viðskiptahalla við útlönd.

Íslendingar munu vera á "neyslufylleríi".

Gáfaðir menn og vel menntir segja að "neysluæði" hafi gripið íslensku þjóðina. Afleiðingarnar verði skelfilegar; sumir ganga svo langt að spá því að "hrun íslenska hagkerfisins" sé skammt undan. Hagfræðingar og talsmenn atvinnulífsins gagnrýna stjórnvöld fyrir að grípa ekki til neinna þeirra aðgerða, sem fallnar séu til að stöðva "neyslufylleríið" og koma viti fyrir almenning.

Ætla mætti að þessir ágætu fræðimenn hefðu eytt stærstum hluta ævi sinnar fjarri fósturjörðinni.

"Neysluæði" hefur einkennt samfélag Íslendinga árum saman. Margir halda því fram að djúpstæða efnishyggju landsmanna megi rekja til ára seinni heimsstyrjaldarinnar þegar útlendir peningar tóku að streyma um hagkerfið. Líkt og framandi menningu hafi verið þröngvað upp á ýmsar frumbyggjaþjóðir með skelfilegum afleiðingum hafi Íslendingar einfaldlega ekki fengið höndlað þetta mikla stökk.

"Neysluæði" Íslendinga kann að eiga sér sögulegar skýringar en mestu skiptir að í því birtist veruleikasýn þjóðarinnar. Sú sýn til heimsins mótast aftur á móti af mörgum þáttum, m.a. af sérlega fjandsamlegu loftslagi sem kallar á mikla inniveru með margvíslegum afleiðingum fyrir þjóðlíf, efnahag, verðmætamat og sálarheill.

Ákveðin efnishyggja fylgir því óhjákvæmilega búsetu við svo erfið skilyrði.

Erfiðara er að greina nákvæmlega hvenær og af hvers konar völdum neysluhyggjan verður gjörsamlega stjórnlaus. Hvað er það, sem fær umtalsverðan hluta almennings til að steypa sér í óviðráðanlegar neysluskuldir? Hvers vegna skilja Íslendingar sig frá flestum þeim þjóðum, sem teljast þróaðar, að þessu leyti?

Með hvaða hætti verður menningarleysi hinnar hamslausu neyslu skýrt á Íslandi?

Við hæfi er að horfa til stjórnvalda og framgöngu þeirra, þegar þess er freistað að bregða ljósi á þetta ástand, sem svo margir hafa áhyggjur af. Hvaða fyrirhyggja og verðmætamat felst í meðferð stjórnvalda á almannafé? Hvaða forgangsröðun birtist í þeim ákvörðunum sem teknar eru um útgjöld? Hvert er það fordæmi sem ráðamenn skapa? Hvaða "skilaboðum er komið á framfæri" eins og sagt er á máli nútímans?

Innan ekki langs tíma munu menn reka upp stór augu á Íslandi. Þegar reikningar vegna landafundahátíðarhalda, kristnitökuhátíðar, menningarhátíða og -kynninga heima og erlendis liggja fyrir verður spurt hvernig það gat gerst, að milljörðum króna væri varið í þessu skyni.

Íslenskir ráðamenn hafa sumsé einnig verið á óvenju heiftarlegu "neyslufylleríi" þótt ólíkt alþýðufólki eyði þeir annarra manna peningum. Og því fer víðs fjarri að af þeim sé runnið.

Hvers vegna ætti almenningur í þessu landi að taka þá, sem stjórna, hátíðlega, þegar þeir hvetja til aukins sparnaðar? Hvers vegna ætti alþýða manna að draga úr neyslu sinni þegar fréttir fjölmiðla í landinu snúast flestar um linnulaust fjárstreymi úr ríkissjóði og þátttöku fyrirmenna í uppskrúfuðum og innihaldslausum hátíðum heima og erlendis? Hvers vegna á almenningur t.a.m. að efast um réttmæti þess að fjármagna sumarleyfi erlendis með rándýrum lántökum þegar mökkur fólks dvelst stóran hluta ársins í útlöndum vegna land- og menningarkynninga af ýmsum toga á kostnað skattborgaranna?

Hófleysið, sem einkennir þessar hátíðir menningar og kristni, er birtingarform sama menningarskortsins og mótar íslenska "neysluæðið".

Meðferð stjórnvalda á fjármunum almennings er jafnan til marks um þá forgangsröðun, sem ákveðin hefur verið á hverjum tíma. Í henni birtist m.a. veraldarsýn forustumanna þjóðarinnar og skilningur þeirra á siðrænum grundvelli stjórnmála.

Heldur einsleitur hópur íslenskra valdsmanna hefur ekki séð ástæðu til að breyta þeirri forgangsröðun að nokkru marki. Kröfur um nýja forgangsröðun í útgjöldum stjórnvalda eru raunar yfirleitt hundsaðar, líkt og fram kom glögglega í grein, er birtist í Morgunblaðinu 16. þessa mánaðar eftir Ólaf Ólafsson, fyrrum landlækni og formann Félags eldri borgara í Reykjavík og nágrenni. Þar fjallar Ólafur Ólafsson um þá forgangsröðun, sem birst hefur í framkomu við eldra fólk í þessu landi á síðustu árum og virðist þá engu skipta hverjir fara fyrir menningarþjóðinni einstöku. Í þessari grein, sem er þvílíkur áfellisdómur yfir núverandi og fyrrverandi ráðamönnum, að skömm þeirra ætti að vera yfirþyrmandi, segir m.a: "En við bjuggumst við betri og sanngjarnari afgreiðslu frá því miðaldra fólki er tók við góðu búi af okkur og situr nú við stjórnvölinn. Allar götur reiknuðum við með því, að okkur yrði ekki sýnd lítilsvirðing og yfirgangur. Svo lengi lærir sem lifir."

Þessi er sú mynd, sem blasir við fólki á Íslandi. Virðingar- og smekkleysi einkennir meðferð á opinberum fjármunum. Tilbúningi, ásýnd og yfirborði er haldið á lofti í stað inntaks og veruleika. Menningarlaus sýndarmennska, upphafning hégómans og grátbrosleg þjóðremba hefur breyst í stórútgerð, sem rekin er á kostnað almennings. Á sama tíma sér eldra fólk á Íslandi sig tilneytt til að kvarta á opinberum vettvangi undan þeirri lítilsvirðingu, sem ráðamenn sýna því.

Í öðrum löndum er framkoma við eldra fólk höfð til marks um menningarstig einstaklinga og þjóða.

Á Íslandi er "neyslustigið" eitt mælanlegt.

Ásgeir Sverrisson