GEORGE Robertson, framkvæmdastjóri Atlantshafsbandalagsins (NATO), sendi í gær fulltrúum í bandarísku öldungadeildinni bréf þar sem hann hvatti þá til að láta af andstöðu sinni við veru bandarískra hermanna í Kosovo-héraði og sagði að brottför þeirra...

GEORGE Robertson, framkvæmdastjóri Atlantshafsbandalagsins (NATO), sendi í gær fulltrúum í bandarísku öldungadeildinni bréf þar sem hann hvatti þá til að láta af andstöðu sinni við veru bandarískra hermanna í Kosovo-héraði og sagði að brottför þeirra myndi stofna aðgerðum bandalagsins í hættu.

Öldungadeildarþingmennirnir John Warner og Robert Byrd lögðu á miðvikudag fram breytingartillögu við frumvarp um útgjöld til Bandaríkjahers og ef frumvarpið verður samþykkt mun það þýða að allir bandarískir hermenn sem gegna friðargæslustörfum í Kosovo verði þaðan að hverfa fyrir 1. júlí 2001. Breytingartillagan sem nú liggur fyrir öldungadeildinni hefur mætt mikilli andstöðu ríkisstjórnar Bills Clintons Bandaríkjaforseta og hefur Madeleine Albright utanríkisráðherra sagt að þingmenn væru að "leika sér að eldinum". Sagði hún jafnframt að ef Bandaríkin sýndu slík veikleikamerki mundi það draga að hræætur.

Í bréfi Robertsons, sem var sent Trent Lott og Tom Daschle, leiðtogum repúblikana og demókrata í öldungadeildinni, sagði að með tillögunni væri verið að senda Slobodan Milosevic Júgóslavíuforseta þau hættulegu skilaboð að bandalagið sé klofið og að stærsti og mikilvægasti aðili þess sé að víkja sér undan skuldbindingum. Í yfirlýsingu forsetaembættisins í gær sagði að tillögur þingmanna gætu spillt fyrir friði í Kosovo og talsmaður George W. Bush forsetaframbjóðanda Repúblikana sagði að þingmenn hefðu farið út fyrir svið sitt með tillögunum, sem myndu binda hendur verðandi forseta Bandaríkjanna.

Evrópuríkin axli fjárhagsbyrðarnar

Á Bandaríkjaþingi ríkir nokkur andstaða við víðfeðmar öryggisskuldbindingar hersins á erlendri grund og á þriðjudag samþykkti mikill meirihluti fulltrúadeildarinnar frumvarp sem kveður á um að bandarískir hermenn í héraðinu verði kallaðir heim nema að Evrópuríkin í NATO axli þær fjárhagsbyrðar vegna aðgerðanna í Kosovo sem þeim séu ætlaðar. Í bréfi Robertsons var þingmönnum þó bent á að Evrópuríki NATO leggi þegar til um 80% friðargæsluliða í Kosovo og greiði meirihluta alls kostnaðar.