UM þrjúleytið eftirmiðdaginn 17. maí árið 1950 voru vinkonurnar Ólöf Sigurðardóttir og Kristín Sólveig Jónsdóttir á gangi á Barónstígnum í Reykjavík, sem oft áður, og datt þeim þá í hug að gera með sér samning. Þá voru þær nemendur á fyrsta ári í Menntaskólanum í Reykjavík og ákváðu að ef þær yrðu ennþá hér eftir fimmtíu ár, skyldu þær hittast á nákvæmlega sama tíma á sama stað.
"Við erum báðar aldar upp í Borgarnesi og bjuggum saman fyrsta árið sem við vorum hér í Menntaskólanum í Reykjavík. Við leigðum stórt herbergi á Laufásvegi og sváfum þar saman í hjónarúmi! Það var voða notalegt að búa þarna og við gengum náttúrlega í skólann og eins mikið um þetta hverfi," segir Ólöf.
"Svo vorum við á gangi þennan dag fyrir fimmtíu árum, að koma úr Sundhöllinni minnir mig, og ákváðum að eftir fimmtíu ár myndum við hittast aftur þarna, ef við yrðum báðar ennþá hérna megin, eins og sagt er."
Upphaflega fannst okkur þetta óendanleiki
Þær Ólöf og Kristín hafa hist annað veifið síðan þær voru saman í skóla en ekki verið í stöðugu sambandi. Ólöf segir að þær hafi alltaf munað eftir samningnum og minnst á það í seinni tíð að nú fari þetta að nálgast."Upphaflega fannst okkur þetta óendanleiki. Fimmtíu ár eru náttúrlega svo langur tími þegar maður er ungur. Þá hugsuðum við sennilega að það kæmi aldrei að þessu. En nú erum við búin að lifa þessi svokölluðu aldamót, erum í góðu ástandi og báðar útivinnandi konur á efri árum."
Það var hátíðleg og gleðileg stund þegar þær Ólöf og Kristín hittust á Barónstígnum fyrradag. Þær fóru í Listasafnið og fengu sér kaffi og ætluðu svo að ganga um bæinn og borða saman kvöldmat.
Ólöf segir að vissulega hafi borgin breytt verulega um svip á fimmtíu árum en segir að þær Kristín hafi lítið velt því fyrir sér þá hvernig borgin myndi líta út eftir fimmtíu ár. Þeim hafi bara þótt þetta óendanlega langur tími og í raun mjög óraunverulegt að það kæmi nokkurn tímann að þessum degi.