Grafarvogsbúar mættu á opinn borgarafund í Grafarvoginum.
Grafarvogsbúar mættu á opinn borgarafund í Grafarvoginum.
Skipulag, fræðslumál og leikskólamál voru meðal þess sem rætt var á fundum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins með íbúum í Grafarvogi. Stefán Stefánsson sat fund þar sem fram fóru ýmis skoðanaskipti.

GRAFARVOGSBÚUM var í vikunni boðið á fundi með borgarfulltrúum Sjálfstæðisflokksins þar sem rætt var um fræðslumál, leikskólamál og skipulagsmál. Borgarfulltrúarnir Inga Jóna Þórðardóttir og Guðlaugur Þ. Þórðarson riðu á vaðið á þriðjudagskvöldið og ræddu við íbúa um fræðslu- og leikskólamál og kvöldið eftir ræddu Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson og Júlíus Vífill Ingvarsson um skipulagsmál.

Í máli Ingu Jónu kom fram að sjálfstæðismenn leggja áherslu á aðgrunnskólarnir í Reykjavík fái raunverulegt faglegt og fjárhagslegt sjálfstæði, gera þurfi rekstrarsamninga við stjórnir einstakra skóla þar sem kröfur séu skilgreindar og þannig eigi skólarnir sjálfir ýmsa möguleika varðandi kjör kennara og skipulag skólastarfs. Guðlaugur ræddi síðan stöðu í leikskólamálum og lagði áherslu á fjölbreyttar lausnir og valfrelsi foreldra.

Ekki sátu seinni fundinn ýkja margir úr þessu tæplega 18.000 manna hverfi, um 14 manns þegar mest var. Engu að síður var fundur stundum fjörugur þegar skoðanir fuku í bland við hnyttin tilsvör þegar fundarmenn báru upp ýmis mál, sem ýmist snertu hitamál hverfisins eða almenn málefni borgarinnar. Loftur Már Sigurðsson, formaður félags sjálfstæðismanna í hverfinu, setti fundinn og tók Vilhjálmur fyrstur til máls og skóf ekki utan af hlutunum til að koma hita í fundargesti, sem komu inn úr garranum. Hann sagði skipulagsmál snerta borgarbúa margvíslega og sjálfstæðismenn hefðu byggt upp Grafarvoginn þrátt fyrir ádeilur minnihlutans í borgarstjórn á þeim tíma og síðan hefði stjórn R-listans verið hörmung.

Vill íbúðabyggð í Geldinganesi

Vilhjálmur sagðist vilja íbúðabyggð á Geldingarnesi þar sem koma mætti fyrir allt að 6 til 7 þúsund manna byggð og að ekki yrði byggð höfn í Eiðsvík - sagðist að vísu hafa haft aðra skoðun á því áður en það væri í lagi að skipta um skoðun ef það yrði til hins betra. Vilhjálmur sagðist vilja framkvæmdir sem allra fyrst því allt útlit yrði fyrir seinkun á framkvæmdum við nýjar brýr inn í Hamrahverfið. Einnig ræddi hann fyrirhugaðar framkvæmdir við yfirbyggt knattspyrnuhús á móts við Hallveg og efast um að rétt væri að leggja allar framkvæmdir á lóðinni í hendurnar á einkaaðilum. Loks tæpti Vilhjálmur á framtíð flugvallar í Reykjavík og vildi greinilega að hann færi hvergi. Fékk Vilhjálmur gott klapp frá fundargestum enda dró hann hvergi af í lýsingum sínum á mótherjum sínum í borgarstjórn.

Vilja lækka fasteignaskatta

Júlíus Vífill Ingvarsson flutti næstu ræðu og benti fyrst á að sjálfstæðismenn vildu lækka fasteignaskatta því þó að þeir hefðu verið miklir af Grafarvoginum legðust þeir mest á fólk með börn. Hann sagði einnig að Sundabraut, brúargerð inn í Grafarvoginn, væri í umhverfismati þar sem verið væri að skoða ýmsar útfærslur. Júlíus ræddi síðan um þéttingu byggðar og flugvallarmál, sem hann sagði R-listann fara illa með.

Þá var komið að Grafarvogsbúum og fyrsta spurning snerist um hvort flokkurinn hefði komið sér saman um leiðtogaefni. Vilhjálmur varð fyrstur til svara og sagði hefð fyrir prófkjöri í Sjálfstæðisflokknum, sjálfur vildi hann hafa Ingu Jónu Þórðardóttur í forystu og myndi styðja hana ef til kæmi. Júlíus Vífill bætti við að í flokknum væri ekkert ósætti eins og hjá R-listanum þar sem Ingibjörg Sólrún Gísladóttir borgarstjóri er allt í öllu. Næsta spurning var um hvort uppfylling lands væri dýr og borgarfulltrúarnir sögðu slíkt ódýran kost, sérstaklega þar sem grunnt væri.

Tónlistarhús á Geldinganesi

Næsti fundargestur var með ákveðnar skoðanir; sagði óheppilegt að eiginkona fjármálaráðherra leiddi borgarstjórn og vildi Vilhjálm í forystu, upplýsti um mikið ónæði af vinnuvélum við Veghamra, sagði vegakerfið til skammar og að hann vorkenndi Breiðhyltingum sem væru í mestu vandræðum með að komast út úr hverfinu á álagstímum. Mestar viðtökur vakti þegar hann velti upp hvort ekki væri góð hugmynd að byggja tónlistarhús á Geldinganesi - ekki ósvipað og Óperuhúsið í Sydney á Ástralíu er staðsett.

Vegamál í hverfinu voru næst tekin fyrir og spurt hvort ekki væri hægt að koma á vegtengingu frá Grafarvogi út á Vesturlandsveg á móts við Korpúlfsstaði en þegar spurt var um hliðið, sem sett var upp til að hindra umferð í gegnum Langarima fór umræðan á flug. Hverfislögreglumennirnir Guðjón Garðarsson og Óskar Bjarki Bjarnason, sem stöldruðu við á fundinum, sögðu mikil vandræði hafa skapast þar í kring og vildu loka götunni. Þá benti formaður íbúasamtakanna, sem staddur var á fundinum, á að í könnun, sem gerð var meðal íbúa við götuna fyrir nokkrum árum hefði skýr meirihluti óskað eftir því að gatan yrði opin og því hefðu samtökin beitt sér fyrir lokun. Fundargestir lágu ekki á skoðunum sínum um málið og komu fram margar tillögur í bland við reynslusögur.

Einnig var spurt um arðsemi tónlistarhúss og svaraði Júlíus Vífill því til að arðsemi væri líklega ekki mikil en á móti kæmi að erfitt væri að reikna út arð af menningu.