STJÓRN Byggðastofnunar ræddi á síðasta fundi sínum þann möguleika að flytja starfsemi stofnunarinnar til Sauðárkróks og segir Kristinn H. Gunnarsson, formaður stjórnarinnar, að stofnunin muni flytja innan árs þegar ákvörðun liggur fyrir um flutninginn. Málið var ekki afgreitt á síðasta fundi þar sem beðið var um frestun, en Kristinn segir að ákvörðun verði tekin á næsta fundi.
Kristinn segist sjálfur vera fylgjandi því að stofnunin verði færð út á landsbyggðina og telur að hugur stjórnarmanna standi til þess.
"Ég sé þetta fyrir mér þannig að menn myndu ákveða þetta með nokkrum fyrirvara og miðuðu við að flutningur yrði um garð genginn innan árs, eða eftir u.þ.b. ár. Ég bendi á að Lánasjóður landbúnaðarins var að opna á dögunum á Selfossi og þá var liðið ár frá því að ákveðið var að flytja hann. Og síðan er rétt að gefa starfsmönnum rúman tíma til að bregðast við og útvega sér vinnu ef þeir hafa ekki hug á því að flytja, og hjálpa þeim þá við það eftir atvikum."
Hagkvæmnisrök benda á Sauðárkrók
Að sögn Kristins þykir stjórninni að mörgu leyti ákjósanlegur tími til að skoða flutning núna. Gott atvinnuástand sé á höfuðborgarsvæðinu og jafnframt sé greinilega hagkvæmt að flytja. Fasteignaverð sé gott hér fyrir sunnan og gott að selja eignir en fasteignaverðið sé tiltölulega lágt úti á landi. Þannig muni húsnæðiskostnaður lækka verulega og stofnunin geti losað eignir með sölunni.Kristinn segist jafnframt telja eðlilegt að Byggðastofnun sé á sínu starfssvæði, sem er landsbyggðin og ekkert óeðlilegt að starfsmennirnir séu í því umhverfi sem þeir eiga að vera talsmenn fyrir.
"Og þegar menn velta því fyrir sér hvar eigi að velja stað á landsbyggðinni þá er svona augljóslega hagkvæmast að setja hana niður þar sem að þegar er þriðjungurinn af starfseminni. Þannig að hagkvæmnisrök benda á Krókinn. Á Sauðárkróki verða þeir einnig í nánu sambandi við Akureyringa, sem er auðvitað höfuðstaður landsbyggðarinnar."
Í dag starfa rúmlega 20 manns hjá Byggðastofnun.