Chris Gosden
Chris Gosden
Chris Gosden fæddist 6. september 1955. Hann er breskur og ástralskur ríkisborgari. Hann er lektor og safnvörður við Pitt Rivers-fornleifasafnið við Oxford-háskóla í Bretlandi.

Chris Gosden fæddist 6. september 1955. Hann er breskur og ástralskur ríkisborgari. Hann er lektor og safnvörður við Pitt Rivers-fornleifasafnið við Oxford-háskóla í Bretlandi. Hann lauk doktorsprófi frá Sheffield-háskóla árið 1983 og hefur starfað að kennslu og rannsóknum á sviði fornleifafræði m.a. í Ástralíu, Vestur-Þýskalandi, Englandi og Nýju-Gíneu. Hann hefur ritað nokkrar bækur og fjölda greina um fræðigrein sína. Nýjasta bók hans nefnist Anthropology & Archaeology - A Changing Relationship sem kom út hjá Routledge-forlaginu 1999. Gosden er kvæntur Jane Kaye, doktorsnema við Oxford-háskóla, og eiga þau tvö börn.

Chris Gosden fæddist 6. september 1955. Hann er breskur og ástralskur ríkisborgari. Hann er lektor og safnvörður við Pitt Rivers-fornleifasafnið við Oxford-háskóla í Bretlandi. Hann lauk doktorsprófi frá Sheffield-háskóla árið 1983 og hefur starfað að kennslu og rannsóknum á sviði fornleifafræði m.a. í Ástralíu, Vestur-Þýskalandi, Englandi og Nýju-Gíneu. Hann hefur ritað nokkrar bækur og fjölda greina um fræðigrein sína. Nýjasta bók hans nefnist Anthropology & Archaeology - A Changing Relationship sem kom út hjá Routledge-forlaginu 1999. Gosden er kvæntur Jane Kaye, doktorsnema við Oxford-háskóla, og eiga þau tvö börn.

Mannfræðistofnun Háskóla Íslands stendur fyrir fyrirlestri í dag klukkan 13.00 í stofu 101 í Odda. Þar mun dr. Chris Gosden ræða um tengsl fornleifafræði og mannfræði, einkanlega í Bretlandi. Jafnframt mun hann flytja fyrirlestur á Akureyri miðvikudaginn 24. maí nk. klukkan 17.00 í boði Minjasafnsins og Háskólans á Akureyri. Þess má geta að kona Gosden, Jane Kaye, er um þessar mundir að vinna að doktorsritgerð um lagarammann í tengslum við íslenskan gagnagrunn á heilbrigðissviði og er hún hér í för með manni sínum. Chris Gosden var spurður hvað hann ætlaði að fjalla um í fyrirlestri sínum.

"Ég mun fjalla um breytt viðhorf hvað varðar samstarf fornleifafræðinga og mannfræðinga. Í Bretlandi hafa þessir fræðihópar löngum verið aðskildir af sögulegum ástæðum, en upp á síðkastið hafa fræði þeirra átt vaxandi samleið og þar kemur tvennt til. Annars vegar hefur mannfræðin lagt aukna áherslu á sögu, en mannfræðin hefur löngum sýnt hinu liðna lítinn áhuga. Hins vegar hefur fornleifafræðin í vaxandi mæli seilst inn á ný svið, m.a. rannsóknir á listmunum og skilningi fólks á landi og rými. Það má því segja að greinarnar hafi færst nær hvor annarri. Fornleifafræðin leitar til mannfræðinnar sem veitir skilning á hvernig forn samfélög hafa starfað og mannfræðin leitar til fornleifafræðinnar til þess að öðlast vitneskju um mannvistarleifar frá fyrri tíð. Báðar greinarnar leggja áherslu á fjölbreytni mannlegra samfélaga og breytingar, þær hljóta því að hafa gagn af náinni samvinnu."

-Hvernig telur þú að mætti hafa gagn af samþættingu fornleifafræði og mannfræði við rannsóknir á víkingatímanum?

"Aðstæður eru mjög breytilegar á ýmsum svæðum jarðarinnar. Á Kyrrahafssvæðinu þar sem ég hef unnið mikið við rannsóknir er lítið vitað um söguna, skammt er frá því að menn tóku að rita um það efni þar, þess vegna hefur fornleifafræðin sérstöku hlutverki að gegna á því svæði en mannfræðin að sama skapi gegnir mikilvægu hlutverki vegna þess að hún hefur fengist við að lýsa í smáatriðum samfélögum á þessu svæði síðustu eitt hundrað ár eða svo. Í Evrópu hins vegar er mun meira vitað og skráð um söguna, m.a. um víkingatímann og íslenska þjóðveldið. Hér held ég að þríþætt samstarf skipti sköpum, samstarf sagnfræði, fornleifafræði og mannfræði. Mannfræðingarnir hjálpa okkur að skilja framandi lifnaðarhætti og hugsunarhátt og fornleifafræðingarnir draga fram í dagsljósið vitneskju um mannvist sem ekki er hægt að öðlast með öðrum hætti."

-Er mikill áhugi á fornleifafræðirannsóknum í þínu umhverfi?

"Já áhugi á fornleifafræðirannsóknum hér fer vaxandi. Þess má geta að um þessar mundir er mikill áhugi í Bretlandi á víkingatímanum. Erfðafræðingar og líffræðimenntaðir mannfræðingar eru að kortleggja ferðir manna um Norðurlönd og Bretlandseyjar og skyldleika mannhópa. Þetta helst í hendur við vaxandi áhuga meðal Skota, Íra, Walesbúa og Englendinga á uppruna sínum, sögu og þjóðerni. Af þessum ástæðum er endurvakinn áhugi á Bretlandseyjum á víkingatímanum og ferðum norrænna manna. Í Oxford eru t.d. a.m.k.tveir rannsóknarhópar að rekja erfðasögu Breta og norrænna manna og hafa niðurstöður þeirra vakið töluverða athygli, meðal annars niðurstöður Agnars Helgasonar, sem vinnur að doktorsritgerð við Oxfordháskóla um þetta efni."

-Hvaða fornleifarannsóknir ert þú að fást við um þessar mundir?

"Ég vinn nú við rannsóknir í Suður-Englandi en áður vann ég mikið á Papúa Nýju-Gíneu. Ég er að kanna hvernig landnýting breyttist á fimmtán hundruð ára tímabili, frá um það bil 1000 f.Kr. og þar til rómverska skeiðinu lauk um 400 e.Kr. Athygli okkar beinist að skiptingu akurlendis og landamerkjum og m.a. byggjum við á tölvutækni og loftmyndum. Komið hefur í ljós að sum af þeim landamerkjum sem enn eru í fullu gildi eru allt að 3.000 ára gömul. Einn mikilvægur þáttur þessara rannsókna á Suður-Englandi, sem Íslendingar kynnu að hafa sérstakan áhuga á, varðar hugmyndir fólks um landið sem það byggir. Rannsóknirnar miða m.a. að því að grafast fyrir um skoðanir fólks á því hvernig beri að umgangast landið og fornminjar í jörðu og hvað fornminjar merki. Við leggjum ríka áherslu á fræðslugildi fornminja- og fornleifarannsókna. Við hvetjum fólk til þess að koma í heimsókn á svæðið til að kynna sér hvað fram fer og koma fram með sínar hugmyndir um hvaða þýðingu fornminjarnar hafi og hvernig eigi að umgangast þær." Þess má geta að dr. Gosden dvelst á Íslandi í eina viku og hefur mikinn áhuga á að kynna sér fornleifarannsóknir og fornminjar á meðan á dvöl hans stendur. Hann hefur einnig áhuga á að kynna sér samskipti almennings og fornleifafræðinga hér.