RÍKISSÁTTASEMJARI hefur boðað til fundar á morgun í kjaradeilu starfsmanna fiskimjölsverksmiðja á Norður- og Austurlandi sem nú eru í verkfalli. Jón Kjartansson er á leið til Færeyja með fullfermi af kolmunna. Að sögn Emils K.

RÍKISSÁTTASEMJARI hefur boðað til fundar á morgun í kjaradeilu starfsmanna fiskimjölsverksmiðja á Norður- og Austurlandi sem nú eru í verkfalli. Jón Kjartansson er á leið til Færeyja með fullfermi af kolmunna. Að sögn Emils K. Thorarensen, útgerðarstjóra hjá Hraðfrystihúsi Eskifjarðar, hefur ASÍ sent systursamtökum sínum í Færeyjum ósk um að ekki verði landað.

Samninganefndir starfsmanna átta fiskimjölsverksmiðja hafa beitt sér fyrir því að ekki verði landað úr ákveðnum skipum í öðrum höfnum en þeim sem verkfallið nær til, en útgerðarmenn eru ósáttir við það og segir Emil það furðulegt að skipin séu bundin slíkum átthagafjötrum.

"Við gengum frá því að fá löndun í Færeyjum fyrir nokkrum dögum, en það kom eitthvað bakslag í það. Forsvarsmaður verksmiðjunnar í Fuglafirði hafði samband og sagði að Alþýðusamband Íslands hefði sent systursamtökum sínum í Færeyjum beiðni um stuðning, sem fælist þá í því að landa ekki úr skipinu. En forystumenn Alþýðusambandsins hér á landi gáfu nú út að landað yrði úr skipum sem voru byrjuð að veiða áður en verkfall skall á."

Bagalegt að draga úr kolmunnaveiðum

Emil segir það bagalegt fyrir Íslendinga ef ekki verður hægt að veiða kolmunna af fullum krafti, þar sem að verið sé að undirbúa kröfur hjá Evrópusambandinu um kvóta í kolmunnastofninum. "Við erum að reyna að vinna okkur rétt áður en kolmunnastofninum verður skipt upp og veiða sem mest. Okkur er ekki ætlaður stór hlutur frá Evrópusambandinu." Hann telur öruggt að fleiri skip verði send á veiðar og að látið verði reyna á löndun að veiðiferð lokinni.