ÁRSREIKNINGUR Reykjavíkurborgar fyrir árið 1999 var lagður fram til fyrri umræðu í borgarstjórn í gærkvöldi.

ÁRSREIKNINGUR Reykjavíkurborgar fyrir árið 1999 var lagður fram til fyrri umræðu í borgarstjórn í gærkvöldi. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir borgarstjóri fylgdi reikningnum úr hlaði og sagði meðal annars að hann fæli í sér staðfestingu á að árangur hefði náðst í fjármálastjórnun Reykjavíkur sem vart ætti sér hliðstæðu.

Inga Jóna Þórðardóttir, oddviti sjálfstæðismanna í borgarstjórn, sagði ársreikninginn hins vegar bera eyðslu- og útþenslustefnu yfirvalda borgarinnar vitni. Þrátt fyrir mikla tekjuaukningu borgarinnar, meðal annars í formi skatta, tækist ekki enn að lækka skuldir borgarinnar.

Borgarstjóri hafnaði þessari túlkun Ingu Jónu á niðurstöðum ársreikningsins og benti á að nú hefði í fyrsta sinn verið hægt að nota hluta af skatttekjum borgarinnar til að greiða niður skuldir borgarsjóðs.

Lítið frávik frá fjárhagsáætlun

Í skýrslu Borgarendurskoðanda með ársreikningnum segir að sé horft framhjá gjaldfærslu á hækkun lífeyrissjóðsskuldbindinga sem stafaði af breyttri framsetningu reikningsskila sveitarfélaga hafi rekstur málaflokka borgarinnar aðeins farið 0,07 % fram úr fjárhagsáætlun.

Skuldir borgarsjóðs eru greiddar niður um tæplega 1,4 milljarða króna. Þar af er um 1 milljarður króna sem Orkuveita Reykjavíkur greiddi til borgarsjóðs en afgangurinn er greiddur með skatttekjum.

Í ársreikningi nú er í fyrsta sinn samstæðureikningur reksturs borgarsjóðs og fyrirtækja borgarinnar. Reikningurinn sýnir að skuldir samstæðunnar hafa aukist um ríflega 1,2 milljarða milli ára. Helstu ástæður þess eru tilteknar lántaka Orkuveitunnar og Reykjavíkurhafnar vegna framkvæmda, lántaka vegna íbúðakaupa Félagsbústaða og yfirteknar skuldir vegna kaupa Vélamiðstöðvarinnar á Gylfaflöt.