Í síðasta Reykjavíkurbréfi Morgunblaðsins var fjallað um skólagjöld í tilefni umræðna á Alþingi um upptöku skólagjalda í MBA-námi við Háskóla Íslands. Í bréfinu ítrekaði Morgunblaðið fyrri afstöðu sína um að taka eigi upp skólagjöld. MBA-málið snýst reyndar fyrst og fremst um það hvort Háskólanum sé heimilt að rukka nemendur um skólagjöld fyrir þetta nýja nám en ekki hvort það sé æskilegt. Nám við Háskóla Íslands á að vera ókeypis samkvæmt lögum.
Morgunblaðið ræddi hins vegar almennt um upptöku skólagjalda og tel ég nauðsynlegt að svara því sem þar kom fram.
Tryggja skólagjöld betri skóla?
Morgunblaðið setti fram þrenn rök fyrir skólagjöldum. Í fyrsta lagi að skólagjöld tryggi betri skóla. Var vísað til reynslu þeirra landa þar sem skólagjöld eru við lýði, eins og t.d. Bandaríkjanna og Bretlands, og ástandið þar borið saman við reynslu Þýskalands þar sem háskólamenntun er ókeypis. Í Þýskalandi ríki "stjórnleysi og öngþveiti" í skólunum og gefið í skyn að það sé vegna þess að aðgangur að æðri menntun sé ókeypis.Það vakti athygli mína að Morgunblaðið skyldi velja Þýskaland í þessum samanburði en ekkert Norðurlandanna þar sem háskólamenntun er líka ókeypis og skólakerfin líkari því sem hér gerist. Ástæðan var auðvitað sú að þar er ekki þetta hörmungarástand eins og í Þýskalandi. Á síðasta ári var ég við nám í Árósaháskóla í Danmörku og þar er aðstaðan til fyrirmyndar bæði fyrir námsmenn og kennara þrátt fyrir að skólagjöld séu ekki til staðar. Af hverju er ekki allt í kaldakolum í Danmörku eins og í Þýskalandi? Það skyldi ekki vera að ástæða bágs ástands í Þýskalandi sé önnur en sú að þar séu ekki skólagjöld?
Háskólar þurfa á miklu fjármagni að halda til þess að geta boðið upp á menntun sem er samkeppnisfær við það besta sem gerist í heiminum. Morgunblaðið telur að með skólagjöldum fái skólar aukið fjármagn og því geti þeir boðið upp á betri menntun en ella. Það er hins vegar ekkert sem tryggir að háskólar fái meira fjármagn rukki þeir inn skólagjöld. Ég minni á að þegar Háskóli Íslands tók upp 25 þúsund króna innritunargjöld á hvern nemanda lækkuðu fjárveitingarnar til skólans um samsvarandi upphæð. Á nýlegri ráðstefnu Norrænu ráðherranefndarinnar kom fram í máli dr. Terry Falconer frá Kanada að samfara hækkandi skólagjöldum þar í landi hefðu fjárveitingar hins opinbera farið minnkandi.
Skólagjöld eru ekki sjálfkrafa trygging fyrir auknu fjármagni til handa háskólum og betri skólum. Skólagjöld eru hins vegar enn ein leið til að velta kostnaðinum við menntakerfið yfir á námsmenn.
Eru námsmenn að leika sér í skólanum?
"Það er auðvitað ljóst að nemandi, sem greiðir gjald fyrir háskólamenntun, leggur meiri áherzlu á að ljúka námi sínu á tilskildum tíma. Sá nemandi eyðir ekki áratug í námið, ef hann getur lokið því á fimm árum, eða þremur árum í framhaldsnám, ef hann getur lokið því á tveimur árum". Í þessum orðum Reykjavíkurbréfsins birtast hin klassísku rök skólagjaldssinna að skólagjöld efli "kostnaðarvitund" námsmanna.Skólagjaldssinnar tala eins og námsmenn beri engan kostnað af námi sínu og séu að leika sér í skólanum. Staðreyndin er hins vegar sú að stúdentar eru að skuldsetja sig og fjölskyldur sínar til þess að geta stundað nám við háskóla. Námslánin eru heldur ekki þess eðlis að menn leiki sér að því að vera á lánum svo árum skipti eins og Morgunblaðið gefur í skyn.
Fara skólagjöld og jafnrétti saman?
Loks telur Morgunblaðið hægt að tryggja jafnrétti til náms þó skólagjöld verði tekin upp. Þetta dreg ég stórlega í efa. Kannanir sýna að þjónustugjöld í heilbrigðiskerfinu hafa aftrað þeim fátækustu að leita sér læknisaðstoðar. Skólagjöld munu gera það sama. Þeir efnaminni munu síður komast í háskólanám.Eru menn búnir að gleyma þeim hörmulegu afleiðingum sem breytingarnar á Lánasjóði íslenskra námsmanna árið 1992 höfðu á þá hópa sem þurftu mest á lánunum að halda? Þá hrökklaðist 30-40% barnafólks og fólks utan af landi frá námi. Þessar breytingar jafnast þó ekkert á við upptöku skólagjalda. Þau munu hafa enn verri afleiðingar.
Menntun fyrir alla gagnast öllum
Meginrökin gegn skólagjöldum eru einkum tvenn. Í fyrsta lagi brjóta þau gegn þeirri grundvallarhugmynd að allir eigi jafnan rétt á menntun óháð efnahag eða öðrum félagslegum aðstæðum. Menntun er mannréttindi og menntun á ekki að takmarka við þá sem hafa efni á henni. Háskóli Íslands á að vera þjóðskóli þar sem jafnrétti ríkir og skólagjöldum er hafnað.Í öðru lagi er löngu vitað að menntun er aflvaki framfara og því er mikilvægt að virkja alla þá krafta sem þjóðfélagið hefur á að skipa. Óhagkvæmt er að útiloka einstaklinga frá námi, sem ef til vill eru fluggáfaðir, vegna bágs efnahags.
Í flóknu og tæknivæddu samfélagi verður menntunin lykillinn að virkri þátttöku í þjóðfélaginu. Því er mikilvægt að koma í veg fyrir að ný stéttaskipting myndist. Stéttaskipting sem er grundvölluð á aðgengi að þekkingu.
Hvergi á hinum Norðurlöndunum er litið á skólagjöld sem valkost fyrir ríkisháskóla. Þessir skólar njóta hins vegar miklu meiri stuðnings stjórnvalda en Háskóli Íslands og þeir geta boðið nemendum og kennurum upp á mun betri kjör en hér þekkjast. Íslendingar eru eftirbátar flestra annarra þegar kemur að fjárveitingum til háskólastigsins. Leið íslenskra stjórnvalda hefur verið að hvetja Háskólann til að óska eftir skólagjöldum. Það hefur Háskólinn ekki gert fram til þessa. Nú á hins vegar að rukka stúdenta sem vilja leggja stund á nýtt MBA-nám um rúma eina milljón króna.
Skólagjaldaaúrræðið er afleiðing fjárskorts og skeytingarleysis stjórnvalda um langt árabil. Þrátt fyrir að allir stjórnmálaflokkar, stúdentar og Háskólinn sjálfur hafi hafnað skólagjöldum hafa stjórnvöld sett Háskólann í þá stöðu að geta ekki boðið upp á nýjungar í námi án þess að nemendur borgi milljónir fyrir námið. Þetta er hættulegt fordæmi og brýtur í bága við þá grundvallarhugmynd um jafnrétti til náms sem hefur lifað í takt við réttlætiskennd þjóðarinnar allt frá stofnun Háskóla Íslands.
Höfundur situr í Stúdentaráði Háskóla Íslands fyrir hönd Röskvu.