Þetta hefur verið erfiður tími og því virkilega gaman að vera með að nýju og ná að skora, en mest um vert er þó að komast heill af leikvelli," sagði Andri Sigþórsson glaðbeittur í leikslok eftir að hafa skorað markið sem skildi KR og Fram að á...

Þetta hefur verið erfiður tími og því virkilega gaman að vera með að nýju og ná að skora, en mest um vert er þó að komast heill af leikvelli," sagði Andri Sigþórsson glaðbeittur í leikslok eftir að hafa skorað markið sem skildi KR og Fram að á Laugardalsvelli. Andri lék aðeins fimm leiki í fyrra vegna meiðsla og skoraði síðast gegn Grindavík í 3:1 sigri KR í Grindavík í 4. umferð 1. júní í fyrra.

"Þegar ég fékk knöttinn sá ég smugu á milli tveggja varnarmanna Fram sem voru fyrir framan mig," segir Andri þegar hann rifjar upp markið. Ég hugsaði bara um það eitt að stinga mér á milli þeirra og komast í skotstöðu. Það tókst; síðan var ég bara heppinn að skotið rataði á markið, boltinn hefði alveg eins getað farið út í buskann," sagði Andri og brosti breitt, enda hafði hann ástæðu til.

"Annars setti veðrið sitt mark á leikinn. Í fyrri hálfleik þegar við lékum gegn vindinum reyndum við að leika okkar á milli og halda sjó í vörninni. Þá sáum við að möguleiki yrði á að gera betur í síðar hálfleik. Í síðari hálfleik vorum við ákveðnir í að halda okkar striki og spila, við vissum að færin myndu koma. Það reyndist þrautin þyngri því við fengum nokkur færi, þótt ekki tækist að nýta þau.

Sigurinn er góður og hann var aðalatriðið, ekki hversu mörkin voru mörg. Ég er að sjálfsögðu ánægður með markið en finnst þó mest um vert að hafa komist heill af velli. Undanfarið ár hefur verið erfitt, en strákarnir og Pétur Pétursson þjálfari hafa stutt mjög vel við bakið á mér," sagði Andri Sigþórsson

Eftir Ívar Benediktsson