Þessi háu afföll af húsbréfum valda því að eigendur húsbréfa tapa nú umtalsverðum fjárhæðum, en það hefur óhjákvæmilega áhrif á fasteignamarkaðinn.
Páll Pétursson félagsmálaráðherra sagði í samtali við Morgunblaðið í gærkvöldi að þetta væri sannarlega áhyggjuefni og sérstaklega hvernig þróunin hefði breyst.
"Allt síðasta ár voru húsbréf án affalla og stundum voru þau seld á yfirverði. Í apríl voru afföllin 7-10%, en eftir því sem ég best veit hafa þau verið komin upp í 15-17% í gær. Orsakirnar eru væntanlega þær að Seðlabankinn hefur verið að hækka vextina stöðugt, en vextirnir á húsbréfunum hafa verið óbreyttir. Lífeyrissjóðirnir eru ólmir að huga að útlöndum og virðast fremur kjósa að fjárfesta þar. En vextir húsbréfanna hafa sem sagt ekki fylgt vöxtum Seðlabankans eða vöxtunum á markaðnum sem hafa verið spenntir upp."
Eitthvað óeðlilegt gerst
"En í framhaldi af þessum áhyggjum eða þessum breytingum, munum við á morgun [í dag] efna til fundar félagsmálaráðuneytis, fjármálaráðuneytis, Íbúðalánasjóðs, Lánasýslu ríkisins og Seðlabanka til þess að fara yfir málið og bera saman bækurnar um hvað hægt sé að gera, því þetta ástand er ómögulegt. Og í kjölfarið ætlum við að reyna að hafa samband við markaðinn og reyna að fá eitthvert samkomulag í gang," sagði félagsmálaráðherra.Hann sagðist ekki sjá fyrir sér á þessari stundu til hvaða aðgerða ætti að grípa, en hins vegar væri óhjákvæmilegt að snúa þessari þróun við.
"Það hefur eitthvað gerst sem er mjög óeðlilegt. Það er ástæða til að benda á að húsbréfin eru mjög góð eign. Þetta eru bréf með ríkisábyrgð og eru miklu traustari en mörg þau bréf sem eru að seljast á háu verði á markaði og eru fyrst og fremst bara fjárfesting í einhverjum óljósum draumum. En þarna er um ríkisábyrgð að ræða."
Páll segir að sú mikla þensla sem verið hefur á húsnæðismarkaði á höfuðborgarsvæðinu geti haft þarna áhrif, en þenslan stafi af mikilli kaupmáttaraukningu undanfarið og þjóðflutningum innanlands til höfuðborgarsvæðisins.