Jürgen Storbeck forstjóri Europol, löggæslustofnunar Evrópu.
Jürgen Storbeck forstjóri Europol, löggæslustofnunar Evrópu.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
FORSTJÓRI Evrópulögreglunnar Europol, Jürgen Storbeck, sem er áheyrnarfulltrúi á Evrópuþingi Interpol í Reykjavík, segir nokkrar ástæður fyrir því að ólíklegt sé að straumur ólöglegra innflytjenda muni beinast til Íslands í miklum mæli, nánar aðspurður...

FORSTJÓRI Evrópulögreglunnar Europol, Jürgen Storbeck, sem er áheyrnarfulltrúi á Evrópuþingi Interpol í Reykjavík, segir nokkrar ástæður fyrir því að ólíklegt sé að straumur ólöglegra innflytjenda muni beinast til Íslands í miklum mæli, nánar aðspurður um þróun innflytjendavandans sem hann minntist á í lok fyrirlesturs síns um starsfemi Europol á þriðjudag.

Storbeck spáir því engu að síður að margir innflytjendur muni millilenda á Íslandi á leið sinni til annarra landa en telur ólíklegt að Ísland sjálft sé fyrirheitna landið.

"Hvert færirðu ef þú værir innflytjandi?" spyr Storbeck í samtali við Morgunblaðið. "Aðalatriðið er að komast af og þess vegna flyttirðu til þess lands sem þú teldir það vera mögulegt, sem þýðir að þú þyrftir að læra tungumálið í viðkomandi landi," segir hann og tekur dæmi um innflytjendur frá Pakistan og Sri Lanka sem kjósa yfirleitt enskumælandi lönd eins og Bretland og Bandaríkin. "Fólk sem flytur frá löndum, sem áður voru franskar nýlendur kýs sér á sama hátt Frakkland eða Belgíu ef það vill fara til Evrópu því það er auðvelt að komast af í þeim löndum."

Innflytjendur laðast að samfélagi samlanda sinna í útlöndum

Storbeck segir að það samfélag löglegra innflytjenda sem fyrir sé í viðkomandi landi hafi ennfremur talsvert aðdráttarafl fyrir ólöglega innflytjendur af sama þjóðerni. "Ef það hefur t.d. myndast Rússanýlenda í Antwerpen eða Berlín, þá er ljóst að ólöglegir rússnenskir innflytjendur leita þangað, enda von um meiri aðstoð þar en annarsstaðar. Það er líka minni hætta á því að ólöglegir innflytjendur þekkist úr þeim hópi sem fyrir er í viðkomandi landi. Tyrkneskir innflytjendur fara t.d. til Þýskalands, Hollands og Belgíu þar sem mest er af Tyrkjum en ekki til Portúgal - jafnvel þótt þeir fengju góða vinnu þar í landi."

Að sögn Storbecks hefur eftirspurn fyrirtækja eftir vinnuafli einnig áhrif á það hvert straumur ólöglegra innflytjenda beinist í heiminum. "Kínversk fyrirtæki í N-Ameríku og Evrópu greiða t.d. glæpasamtökum fyrir vinnuafl eftir séróskum og þannig getur markaðurinn stundum kallað á ólöglegan innflutning fólks milli landa þar sem fólk er sett í láglaunastörf eða selt í vændi."

Storbeck segist þó ekki geta útilokað að glæpasamtök beini ólöglegum innflytjendum hingað til lands en telur engu að síður að kjöraðstæður fyrir slíkan innflutning séu ekki fyrir hendi hérlendis.

Ef marka má upplýsingar lettneska Interpol-mannsins Jurisar Jasinkevics, sem situr Evrópuþingið, er ekki útilokað að erlend glæpasamtök hafi augastað á Íslandi. Hann sagði í samtali við Morgunblaðið að óstaðfestar upplýsingar hermdu að fluttar væru inn lettneskar nektardansmeyjar til að dansa á íslenskum næturklúbbum og málið hafi borist Interpol. Það eigi þó eftir að kanna hvort um ólöglega skipulagða starfsemi sé að ræða en ef svo reynist að grunurinn sé á rökum reistur verði að öllum líkindum hafin rannsókn lettneskra lögreglyfirvalda í samvinnu við íslensku lögregluna.

Hann segir að skýr skil hafi myndast í heimalandi sínu á glæpasviðinu fyrir um áratug en þá hafi skipulögð glæpastarfsemi tekið talsverðum breytingum.

"Skipulögð glæpastarfsemi fyrir tíu árum var sýnileg, hafði "andlit". Þar var um að ræða ofbeldi, rán, fjárkúgun og svo framvegis. Nú er skipulagðri glæpastarfsemi beint gegn efnahagskerfinu með peningaþvætti eða því sem við köllum fjármálahryðjuverk og Lettlandi stafar mikil hætta af," segir Jasinkevics. "Vissulega stöndum við frammi fyrir skipulagðri verslun með fólk og vændisiðnaði sem ógnar mjög lettneskum konum." Hann segir að þrátt fyrir vaxandi fíkniefnasmygl í gegnum landið til annarra landa geti það þó ekki talist mikið og meðal annarra verkefna lettnesku lögreglunnar sé vaxandi áfengis- og tóbakssmygl og bílasmygl í gegnum landið.

Innflytjendur sækjast ekki eftir dvöl í Lettlandi

Í nóvember í fyrra settu lettnesk yfirvöld á fót framkvæmdamiðstöð skipaða m.a. lögreglu, tollgæslu og saksóknurum sem stefnt er gegn glæpastarfsemi í landinu og talsverðar væntingar eru gerðar til.

"Fyrir 5 til 6 árum stóðum við frammi fyrir alvarlegum vanda vegna straums ólöglegra innflytjenda í gegnum Lettland á leið til Norðurlandanna. Innflytjendur sækjast ekki eftir því að setjast að í Lettlandi enda eru lífskjör kröpp. Innflytjendur sækjast eftir því að komast inn í Danmörku, Þýskaland Svíþjóð og Noreg," segir Jasinkevics og bætir við að mikil og góð lögreglusamvinna eigi sér stað á milli Lettlands og Noregs, sem sé Lettum afar mikilsverð.

Hann segir að að tengsl Interpol og Europol séu efst í huga sér í augnablikinu en samvinna þessara tveggja lögreglusamtaka hefur verið rædd á Evrópuþinginu. Nokkur munur er á starfsemi Interpol og Europol, sem lýsir sér m.a. í því að Interpol, sem rekur sögu sína allt aftur til ársins 1914 ef allt er talið með, fylgir sakamálum ekki eins langt eftir og Europol eins og Jürgen Storbeck útskýrði í fyrirlestri sínum á þriðjudag. Europol er mun yngri stofnun en Interpol og tók að fullu til starfa í fyrra. Starfsemi Europol hófst árið 1994 með stofnun Eiturlyfjadeildar Europol en á næstu árum bættust fleiri glæpaflokkar við. Nú vinnur Europol m.a. gegn hryðjuverkastarfsemi, verslun með manneskjur og barnaklámi, peningafölsun, ólöglegum innflutningi fólks frá öðrum löndum og ólöglegri verslun með geislavirk efni og kjarneðlisfræðileg efni svo dæmi séu tekin.

Evrópuþingi Interpol lýkur í dag, föstudag, en ýmsir Interpol-fulltrúar og áheyrnarfulltrúar hyggjast lengja dvöl sína á Íslandi.