DAGANA 22. til 31. maí nk. verður á vegum Opins háskóla, menningarborgarverkefnis Háskóla Íslands, námskeið sem hlotið hefur heitið Lyf í daglegu lífi, hagnýt lyfjafræði fyrir almenning.

DAGANA 22. til 31. maí nk. verður á vegum Opins háskóla, menningarborgarverkefnis Háskóla Íslands, námskeið sem hlotið hefur heitið Lyf í daglegu lífi, hagnýt lyfjafræði fyrir almenning. Námskeiðið fer fram á fimm kvöldum í Lögbergi, stofu 101 á jarðhæð og stendur frá kl. 20-22. Enn eru örfá sæti laus.

Á námskeiðinu munu sérfræðingar fjalla á aðgengilegan hátt um lyf sem mikið eru notuð hér á landi, svo sem verkjalyf, svefnlyf, þunglyndislyf og önnur geðlyf, fæðubótarefni, lyf við meltingartruflunum, sýklalyf, blóðþrýstingslækkandi lyf og hormónalyf sem notuð eru eftir tíðahvörf.

Leitast verður við að miðla í stuttu máli upplýsingum um hvernig lyfin verka á mannslíkamann, hvers beri að gæta við notkun þeirra, hvaða aukaverkanir geti fylgt lyfjatöku, hvaða lyf megi ekki taka saman. o.fl.

Einnig verða tekin dæmi af náttúrulyfjum og rætt í grófum dráttum um virkni, aukaverkanir, víxlverkanir við lyf, frábendingar og hvers beri að gæta við notkun þeirra. Að loknum u.þ.b. 30 mín. fyrirlestrum um hvern lyfjaflokk gefst þátttakendum tækifæri til fyrirspurna og umræðna.

Umsjón með námskeiðinu hefur Kristín Ingólfsdóttir, prófessor í lyfjafræði.

Fluttir verða eftiraldir fyrirlestrar: Verkjalyf. Sigurður Árnason, krabbameinslæknir. Náttúrulyf við svefnleysi, kvíða og öðrum kvillum. Kristín Ingólfsdóttir, prófessor. Þunglyndislyf og önnur geðlyf. Tómas Zoëga, geðlæknir. Svefnlyf. Magnús Jóhannsson, læknir og prófessor. Sýklalyf. Sigurður Guðmundsson, smitsjúkdómalæknir og landlæknir. Víxlverkanir lyfja. Sveinbjörn Gizurarson, lyfjafræðingur og prófessor. Blóðþrýstingslækkandi lyf. Guðmundur Þorgeirsson, hjartalæknir og prófessor. Hormónalyf. Ragnheiður Inga Bjarnadóttir, kvensjúkdómalæknir. Fæðubótarefni og mataræði. Inga Þórsdóttir, næringarfræðingur og prófessor. Lyf við meltingartruflunum - mataræði. Ásgeir Theódórs, meltingarsjúkdómafræðingur.

Námskeið Opins háskóla eru öllum opin endurgjaldslaust, en þátttakendur verða að skrá sig hjá Endurmenntunarstofnun Háskóla Íslands.