ÍSLANDSMEISTARAR KR tóku upp þráðinn þar sem frá var horfið á síðasta keppnistímabili er þeir sóttu Framara heim í Laugardalinn í norðan strekkingi. KR-ingar sýndu að þeir eru þess albúnir að verja titilinn frá því í fyrra; á tímum náðu þeir að leika ágæta knattspyrnu og voru mun meira sannfærandi í leik sínum en Framarar. Sigur KR, 1:0, var því sanngjarn og hefði hæglega geta verið stærri. Andri Sigþórsson skoraði eina mark leiksins eftir að hafa verið fjarri góðu gamni í nærri því ár og fór vel á því að besti maðurinn vallarins riði baggamuninn.
Aðstæður til knattspyrnuiðkunar voru ekki eins og best verður á kosið, norðan strekkingsvindur eftir vellinum og léku Framarar með vindinn í bakið í fyrri hálfleik. Kom veðrið verulega niður á skemmtanagildi leiksins og því miður gerðu alltof margir sér lífið enn erfiðara með því að hemja knöttinn illa og spyrna honum ótt og títt upp í loftið.
Framliðið lék 4-5-1 með Ásmund Arnarsson fremstan og einnig skaut Hilmar Björnsson sér fram. KR-ingar léku hins vegar lengstum 4-4-2 með nýliðann Gunnar Einarsson í öftustu vörn í sínum fyrsta deildarleik fyrir félagið. Fremstir voru Guðmundur Benediktsson og Andri. Ríkti mikil eftirvænting vegna endurkomu Andra og var enginn svikinn af því að sjá leiftrandi tilburði hans.
Leikmenn Fram voru hins vegar öllu sprækari á upphafsmínútunum og strax á fjórðu mínútu skall hurð nærri hælum Kristjáns Finnbogasonar, markvarðar KR, er Hilmar Björnsson skallaði fast að marki úr miðjum teignum, þar sem hann var á auðum sjó. Kristján var hins vegar vandanum vaxinn. Rétt áður hafði Hilmar verið einn á miðjum markteig en sending samherja var aðeins of há.
Tveimur mínútum síðar var Hilmar enn á ferðinni með skalla sem Kristján þurfti að hafa sig allan við að verja í horn.
Eftir líflegar upphafsmínútur koðnaði sóknarleikur Fram niður er á leið og stóð KR-ingum ekki mikil ógn af honum. Of mikið var reynt að spyrna langt fram í stað þess að leika hratt milli manna og opna þannig vörn KR.
Hinum megin vallarins sóttu KR-ingar í sig veðrið. Guðmundur var nærri því að sleppa í gegn á 11. mínútu í tvígang. Þá var Andri að leika varnarmenn Fram grátt og reyndar áttu þeir í vandræðum með að ráða við hraða hans, einkum átti Valur Fannar Gíslason í vandræðum.
Þegar á leið datt mesti botninn úr leiknum sem að mestu fór fram á miðjunni fram að hálfleik. Leikmenn KR mættu mjög ákveðnir til leiks í síðari hálfleik og voru þeir nærri því að sleppa í tvígang í gegn áður en Andri skoraði markið á 51. mínútu, sem reyndist vera hið eina þegar öllu var á botninn hvolft. Var það sérlega laglegt.
Eftir markið héldu KR-ingar uppi öflugri sókn og hefðu hæglega bætt við fleiri mörkum. Einar Þór Daníelsson fékk dauðafæri, en skaut í stöng og skömmu síðar fékk Guðmundur boltann, einn á miðjum vítateig, eftir að Andri hafði leikið vörn Fram afar grátt. Guðmundur hafði nægan tíma til að leggja knöttinn fyrir sig, en kaus þess í stað að skjóta hið snarasta með þeim afleiðingum að knötturinn fór víðsfjarri markinu og Fjalar Þorgeirsson, markvörður Fram, andaði léttar. Þarna hefði Guðmundur hins vegar svo hæglega geta gert mikið betur, enda tvímælalaust besta færi leiksins.
Þegar komið var fram yfir miðjan síðari hálfleik, slakaði KR aðeins á klónni. Framarar skiptu Þorbirni Atla Sveinssyni inn á í stað Ásmundar Arnarsonar og færðu Kristófer Sigurgeirsson og Hilmar enn framar. Átti að freista þess að jafna metin. En það er skemmst frá því að segja að þar var við ramman reip að draga, bæði gegn skipulagðri KR-vörn og norðan strekkingnum enda skilaði þetta engum árangri.
Leikur Fram var nokkuð þunglamalegur, boltinn gekk þó þokkalega á milli manna en allan brodd vantaði í sóknarleikinn, ekki ósvipað og oft var í fyrra. Þá var vörnin nokkuð þung á fæti.
Eins og framan segir léku KR-ingar oft skemmtilega sín á milli, boltinn gekk hratt milli manna og hreyfingin var góð á leikmönnum liðsins. Ef einhverja ályktun má draga svo snemma móts þá bendir flest til þess að KR-ingar eigi eftir að skemmta sjálfum sér og fleirum á næstu mánuðum. Fram-liðið á hins vegar lengra í land.
Ívar Benediktsson skrifar