ÞAÐ ER nánast hægt að tala um Breakbeat-áhangendur sem meðlimi sértrúarsafnaðar. Tryggðin er slík að það gerist alltaf reglulega að tónlistaráhugamenn fá kalda gusu í andlitið frá undiröldu neðanjarðargeirans. Það er líklegast þessi tryggð við raftónlist sem heldur vínylplötuútgáfunni lifandi í heiminum í dag.
Í kvöld ætlar plötusnúðurinn James Allsop (sem einnig er þekktur undir listamannanafninu Perfect Combination) að sýna plötuspilarakúnstir sínar á Thomsen. Hann kemur frá Manchester í Bretlandi og er einn þeirra sem stendur að baki "M/CR"-hreyfingunni, en hún samanstendur af Breakbeat og Drum & Bass-tónlistarmönnum frá heimabæ hans. Þar vinna þeir allir undir sama hatti í þeim tilgangi að allir geti lært hver af öðrum innstu leyndardóma brotna taktsins.
Hann rekur einnig sitt eigið útgáfufyrirtæki, Freeform records, og hefur nú þegar gefið út fjórar smáskífur og eitt samansafn á geislaplötu sem ber nafnið "Freeformin: The Manchester Movement Album vol 1".
James kemur hingað í boði Virkni félagsskaparins sem samanstendur af innsta kjarna brotna taktsins á Íslandi, þar á meðal má finna Eldar Ástþórsson, einn helsta trúboða safnaðarins, en hann er einmitt annar umsjónarmaður útvarpsþáttanna "Skýjum ofar" sem er á dagskrá Rásar 2 á fimmtudagskvöldum.
Fyrir áhugasama er vert að benda á heimasíðu íslenskra aðdáenda brotna taktsins, www.breakbeat.is þar sem trúarbrögðum þessa samheldna hóps eru gerð góð skil.