SAMRUNI Kjötumboðsins hf., Norðvesturbandalagsins hf. á Hvammstanga og kjötsviðs Kaupfélags Héraðsbúa tekur gildi 1. júlí næstkomandi.

SAMRUNI Kjötumboðsins hf., Norðvesturbandalagsins hf. á Hvammstanga og kjötsviðs Kaupfélags Héraðsbúa tekur gildi 1. júlí næstkomandi. Ársvelta hins sameinaða félags er áætluð um 2 milljarðar króna og starfsmenn verða vel á annað hundrað, að því er fram kemur í fréttatilkynningu.

Þar segir að tilgangurinn með sameiningunni sé að auka arðsemi, gera fyrirtækið betur hæft til að þjónusta viðskiptavini, ásamt því að ná hagræðingu í slátrun og vinnslu.

Kjötumboðið hf. hóf starfsemi sína árið 1993 er það yfirtók rekstur Goða hf. Á síðustu þremur árum hefur sala á unnum kjötvörum aukist um 40% og það sem af er þessu ári um rúm 20%. Kjötumboðið hf. var rekið með hagnaði á sl. ári og er það verulegur viðsnúningur frá fyrra ári, að því er fram kemur í tilkynningunni. Félagið er skuldlaust og eigið fé þess 118 milljónir króna um sl. áramót.

Um nokkurt skeið hefur legið fyrir að Helgi Óskar Óskarsson, sem verið hefur framkvæmdastjóri Kjötumboðsins hf., myndi hverfa til annarra starfa. Valdimar Grímsson rekstrartæknifræðingur hefur verið ráðinn til þess að gegna starfi framkvæmdastjóra hins nýja sameinaða félags. Stjórn Kjötumboðsins hf. er þannig skipuð að formaður er Ingi Már Aðalsteinsson, aðrir í stjórn eru Jón E. Alfreðsson, Jón Sigurðsson, Kristján Jóhannsson og Þorsteinn Benónýsson.

Í tilkynningunni segir að nú sé helmingur yfirmanna Kjötumboðsins hf. konur, í samræmi við starfsmannastefnu. Vörumerki Kjötumboðsins hf. eru m.a. Goði og EKTA.