Björn Bjarnason
Björn Bjarnason
Vilji samfylkingarmenn Háskóla Íslands vel, segir Björn Bjarnason, eiga þeir að virða sjálfstæði hans til að taka ákvarðanir um fagleg málefni sín og framkvæma þær.

NOKKRAR umræður fara nú fram um þá ákvörðun viðskipta- og hagfræðideildar Háskóla Íslands að bjóða svonefnt MBA-nám sem endurmenntun og heimta fyrir það gjald af nemendum. Síðan ákvörðun deildarinnar um að bjóða námið var kynnt í febrúar síðastliðnum hefur verið unnið að því á vettvangi Háskóla íslands að útfæra hana með þeim hætti, að framkvæmdin standist lög og reglur skólans.

Ný lög um Háskóla Íslands veita honum meira sjálfstæði en áður á öllum sviðum. Fjárhagsleg tengsl ríkisins og skólans hafa tekið á sig nýja og betri mynd með samningi, sem ritað var undir í október 1999. Ingjaldur Hannibalsson prófessor, sem er formaður fjármálanefndar á vegum háskólaráðs, fullyrti í tilefni af nýlegri, norrænni ráðstefnu um fjármögnun háskólastigsins, að samningurinn um fjármögnun kennslu við Háskóla Íslands skipaði skólanum í fremstu röð. Launakjör prófessora við Háskóla Íslands hafa batnað undanfarin misseri og sömu sögu er að segja um dósenta og lektora. Gott samkomulag er um það á vettvangi stjórnar Lánasjóðs íslenskra námsmanna, hvernig bæta á hag lánþega með nýjum útlánareglum sjóðsins, sem taka gildi hinn 1. júní næstkomandi. Markvisst er unnið að því að ná samkomulagi um að styrkja rannsóknaþáttinn í starfi Háskóla Íslands og getu hans til að veita nemendum fleiri tækifæri til að stunda meistara- og doktorsnám.

Ástæða er til að minna á þessar staðreyndir, þegar rætt er um fyrirhugað MBA-nám við Háskóla Íslands, því að á pólitískum vettvangi hafa talsmenn Samfylkingarinnar ítrekað fullyrt, að tillaga viðskipta- og hagfræðideildar Háskóla Íslands stafi af því, að stjórnvöld hafi brugðist skólanum auk þess sem ákvörðunin sé einhvers konar áfellisdómur yfir menntastefnu Sjálfstæðisflokksins, því að illa launaðir prófessorar séu að leita leiða til að drýgja tekjur sínar með ofurálögum á nemendur. Er jafnframt gefið í skyn, að eitthvert laumuspil af hálfu Sjálfstæðisflokksins ráði ferðinni hjá viðskipta- og hagfræðideild.

Runólfur Smári Steinþórsson, dósent við viðskipta- og hagfræðideild Háskóla Íslands og forstöðumaður MBA-námsins, gerir lesendum Morgunblaðsins góða grein fyrir rökunum að baki tillögu viðskipta- og hagfræðideildar hinn 17. maí síðastliðinn. Þar sjá lesendur svart á hvítu, að allar samsæriskenningar samfylkingarmanna í þessu máli eru úr lausi lofti gripnar. MBA-námið er að mati Runólfs Smára nýtt tækifæri til að efla Háskóla Íslands.

Háskóli Íslands á að leitast við að styrkja stöðu sína í alþjóðlegri samkeppni, sem herðist jafnt og þétt. Mestu skiptir, að hann sýni fram á það með ótvíræðum hætti, að ákvarðanir hans um þetta efni séu í samræmi við lög og reglur, sem byggjast á því, að ekki eru heimt skólagjöld af nemendum í námi, sem ekki flokkast undir endurmenntun.

Vilji samfylkingarmenn Háskóla Íslands vel eiga þeir að virða sjálfstæði hans til að taka ákvarðanir um fagleg málefni sín og framkvæma þær.

Höfundur er menntamálaráðherra.