Saura: Mynd um Bunuel.
Saura: Mynd um Bunuel.
Það getur verið forvitnilegt að gægjast bakvið tjöldin hjá framleiðendum og skoða hvaða kvikmyndir gætu verið væntanlegar í kvikmyndahús, - og hverjar þeirra ná tæpast á rekka í myndbandaleigum.

Það getur verið forvitnilegt að gægjast bakvið tjöldin hjá framleiðendum og skoða hvaða kvikmyndir gætu verið væntanlegar í kvikmyndahús, - og hverjar þeirra ná tæpast á rekka í myndbandaleigum. Erótísk kvikmynd Rosu von Praunheim hlýtur að teljast í síðari flokknum, þrátt fyrir að titillinn verði að teljast einn sá frumlegasti á hátíðinni: "Can I Be Your Bratwurst, Please?"

Kvikmyndagerðarmenn vestanhafs eru fljótari til en flestir aðrir þegar kemur að viðfangsefnum úr heimsfréttunum. Nú þegar eru tökur hafnar á "leynilegum stað" á nýrri kvikmynd, sem sögð er "eldfim, dramatísk og mannleg" og heitir einfaldlega: "Elian, saga Gonzales-drengsins".

Mikil leynd hvílir yfir sýningu á hálftíma úr þríleik Peters Jacksons , sem byggður er á Hringadróttinssögu og hlaðinn tæknibrellum. Einungis fjörutíu manns af markaðnum er boðið á sýninguna; blaðamenn verða að finna sér eitthvað annað til dundurs.

Það getur m.a. verið kynning á næsta verkefni Carlos Sauras , "Bunuel And King Solomon's Table" sem fjallar um samskipti spænska leikstjórans Luis Bunuels við Salvador Dali og Federica Garcia Lorca , en sérstök dagskrá er helguð minningu Bunuels í Cannes í tilefni af aldarafmæli hans.

Svo geta þeir líka fylgst með því þegar kveikt er í aðalleikkonu Doomsdayer 2 á ströndinni, sem af titlinum að dæma er lýsandi fyrir efni myndarinnar.

Nú eða hlakkað til þess að horfa á fyrstu stafrænu kvikmynd Þjóðverja, Söngur Hitlers. Hún fjallar um tónskáld sem fengið er til að semja afmælislag fyrir Hitler .

Þótt dagar stórmyndarinnar "Gone With the Wind" eða Á hverfanda hveli séu liðnir er engin ástæða til að örvænta. Það kemur mynd í myndar stað og það má alltaf kynna sér norska sjómannslífið í myndinni "Gone With the Fish" eða Hverfandi fiskur. Loks ætti að verða forvitnilegt að horfa á spænska kvikmynd Juan Potau , þótt ekki sé ráðlegt að taka titilinn bókstaflega: "Ekki anda, ástin liggur í loftinu."

Pétur Blöndal