Trine Dyrholm í Veislunni: Leikur nú hjá Tómasi.
Trine Dyrholm í Veislunni: Leikur nú hjá Tómasi.
ÍSLENSKI kvikmyndagerðarmaðurinn Tómas Gíslason hefur alið mestan sinn aldur í Danmörku og getið sér gott orð þar fyrir heimildarmyndir.

ÍSLENSKI kvikmyndagerðarmaðurinn Tómas Gíslason hefur alið mestan sinn aldur í Danmörku og getið sér gott orð þar fyrir heimildarmyndir. Nú er fyrsta leikna kvikmyndin hans, Like a Rock, í vinnslu, byggð á sama efni og heimildarmynd hans, The Patriots, sem hann gerði 1997.

Tómas er heillaður af bandarískri neðanjarðarmenningu af ýmsu tagi og 1997 ferðaðist hann um í Montana, þar sem mikið er af alls kyns hópum er trúa á hvers kyns samsæriskenningar, safna að sér vopnum og annað í þeim dúr.

Myndin fjallar um kynni hans af þessum hópum, fléttuð saman við landslagið og aðstæður þarna.

Kvikmyndin sem nú er í vinnslu sækir efni í sömu aðstæður. Þetta er vegamynd með danskri leikkonu og bandarískum leikara í aðalhlutverkum, þeim Trine Dyrholm og Gareth Williams , en hann lék meðal annars í Malcolm X. Í myndinn ferðast þau frá Las Vegas til Seattle og lenda í ýmsu á leiðinni.

Tómas útskrifaðist frá danska kvikmyndaskólanum 1982, um leið og Lars von Trier . Tómas tók þátt handritsvinnunni í The Element of Crime 1984, fyrstu mynd von Triers eftir lokaverkefni hans í kvikmyndaskólanum. Myndin er sambland af leynilögreglumynd og heimsendastemmningu Andrej Tarkovskis .

Það eru þó heimildarmyndir Tómasar , sem hafa rækilega komið honum á blað með bestu kvikmyndagerðarmönnum Dana. Árið 1994 stjórnaði hann gerð myndarinnar Fra hjertet til hånden, sem fjallar um danska kvikmyndagerðarmanninn Jørgen Leth . Myndin þykir bæði góð og óvenjuleg.

Nýjasta heimildarmynd Tómasar er Maximum Penalty, sem segir frá ferðum Tómasar um Rússland með dönskum fræðimanni, Ole Sohn , er leitað hefur heimilda í rússneskum skjalasöfnum um Dani, sem hurfu í Sovétríkjunum á sínum tíma. Auk þess að horfa til fortíðarinnar fléttast örar breytingar í Rússlandi samtímans inn í myndina.

Kaupmannahöfn. Morgunblaðið.