Curtis P. Snook, sérfræðingur í bráðalækningum og klínískri eiturefnafræði við Landspítalann, segir ýmis fæðubótarefni frá Bandaríkjunum vera í notkun hér þótt þau séu óleyfileg, s.s. efedrín.

Curtis P. Snook, sérfræðingur í bráðalækningum og klínískri eiturefnafræði við Landspítalann, segir ýmis fæðubótarefni frá Bandaríkjunum vera í notkun hér þótt þau séu óleyfileg, s.s. efedrín. Innlagnir á sjúkrahús vegna misnotkunar á fæðubótarefnum eru þó sjaldgæfar. "Aðalmálið er að mörg fæðubótarefnanna eru lítið rannsökuð og þeim fylgja ekki nægar upplýsingar um innihald.

Lyfjum fylgja leiðbeiningar en sjaldnast fylgja þær fæðubótarefnum. Í orkudrykkjum, svo dæmi séu tekin, er að finna örvandi efni og oft amínósýrur. Slíkir orkudrykkir fara illa saman við sum þunglyndislyf en erfitt er að nálgast upplýsingar um þá hættu."

Í ýmsum efnum, svo sem Herbal Ecstacy og Herbal Life, er stundum efedrín, sem er lyf skylt amfetamíni, en þar sem dagskammturinn er lítill hafa eitrunartilfelli verið sjaldgæf, að sögn Curtis Snook.

"Miklar hættur fylgja langtímanotkun slíkra efna meðal annars fyrir æðakerfið. Það sama má segja um of stóra skammta af vítamínum, svo sem A og D sem safnast fyrir í fitunni. Ef fólk tekur of stóra skammta inn daglega í langan tíma getur það fengið eitrun."