Umræðan um fæðubótarefni hefur verið með ólíkindum hér á landi og stafar af vanþekkingu á efninu, að mati Einars Ólafssonar lyfjafræðings og innflytjanda fæðubótarefna."Um er að ræða sérhæfð efni sem hafa jákvæð áhrif á líkamsstarfsemi okkar. Þegar litið er til almennrar neysluvenju Íslendinga, er fita og sykurneysla of mikil. Mörgum sem er umhugað um heilsu sína nota því fæðubótarefni til þess að bæta samsetningu fæðunnar. Ítarlegar klínískar rannsóknir á ýmsum fæðubótarefnum sína fram á með óyggjandi hætti gagnsemi viðkomandi efnis."
Fæðubótarefni hafa mjög viðtæka merkingu, að sögn Einars. "Nánast allir eru sammála um gagnsemi vítamína, lýsis og kalks. Þegar neikvætt er talað um fæðubótarefni, er venjulega verið að vísa til einangraðs efnis en ekki heildarinnar, á þessu verður að gera greinilegan mun. Stærsti vandinn er sennilega skortur á faglegri ráðgjöf eða aðgengi að slíkri ráðgjöf varðandi fæðubótarefni.
Framleiðendur fæðubótarefna lúta ekki sömu ströngu reglum og lyfjaframleiðendur og vissulega eru mismunandi skoðanir. Vandinn snýr aðallega að verðlagninu, ef kröfur aukast þá kæmi það fram í verði vörunnar . Í Bandaríkjunum er neytendaeftirlit mjög virkt og ef framleiðandi fær neikvæða umsögn, þá er það nánast dauðadómur."
Einar segir að íslenskir innflytjendur vilja fleiri vörutegundir viðurkenndar en verst sé að samræmis gætir ekki milli reglna ESB og g Íslands varðandi innflutning á fæðubótarefnum.
Vegna umræðu um veikindi og ótímabær dauðsföll af völdum fæðubótarefna, segir Einar að aðallega hafi um verið að ræða efedrín sem er óleyfilegt hér á landi. "Á heildina litið er myndin mjög skýr; mikil gagnsemi er af réttri töku fæðubótarefna. Innihaldslýsingar eru mjög ítarlegar á fæðubótarefnum og reyndar mætti matvælageirinn taka sér þetta atriði til fyrirmyndar."