Hvað er langt síðan við sáum Kevin Costner í almennilegri bíómynd? Var það JFK ? Virðist óralangt síðan. Þegar hugsað er til hans síðustu mynda koma eintóm leiðindi fram í hugann.

Hvað er langt síðan við sáum Kevin Costner í almennilegri bíómynd? Var það JFK? Virðist óralangt síðan. Þegar hugsað er til hans síðustu mynda koma eintóm leiðindi fram í hugann. Nú síðast reyndi hann að flikka upp á ímynd sína með því að leika í enn einni hafnaboltamyndinni (honum hefur tekist vel upp í þeim hingað til) en For Love of the Game reyndist vera enn einn bömmerinn í langri röð slíkra á ferli leikarans.

Einu sinni var Kevin Costner á toppnum. Það var talsvert strögl fyrir hann að komast þangað. Frægasta hlutverk hans áður en hann varð frægur var ekki einu sinni hlutverk. Leikstjórinn Lawrence Kasdan klippti hann út úr The Big Chill. En Hollywood-mógúlarnir veittu honum athygli og þegar ráðið var í aðalhlutverkið í Hina vammlausu varð þessi tiltölulega óþekkti leikari fyrir valinu í hlutverk hins rammheiðarlega Eliot Ness . Og Costner var að sönnu frábær í hlutverkinu. Þetta var árið 1987 og hann lék í góðum trylli þetta saman ár, No Way Out. Stjarna var fædd, eins og þeir segja.

Og ekki nóg með það. Stjarna var fædd til þess að gera kvikmyndir. Eða það hélt hún. Þremur árum síðar eða eftir að hafa leikið í tveimur hafnaboltamyndum, Bull Durham og Field of Dreams, svona upp á sjálfsöryggið, ákvað hann að gera bíómynd sjálfur og útkoman varð Dansar við úlfa, kúrekamynd fyrir nýaldarsinna. Myndin hlóð á sig óskurum og Costner sjálfur fékk leikstjóraóskarinn og myndin náði óhemju vinsældum þótt ekki væru allir jafnhrifnir af leikstjóranum/leikaranum; gagnrýnandinn Pauline Kael sagði eftir að hafa séð myndina að Costner væri ekki aðeins með fjaðraskraut á hausnum heldur fiður í hausnum.

Hann lék Hróa hött og gat ekki klúðrað því og hann var ábúðarmikill sem saksóknarinn Jim Garrison í ofsabrjáli Olivers Stone , JFK. Síðan þá hefur hann ekki gert tutlu af viti. Kannski var það tryggð hans við gamla, mistæka vini eins og Kevin Reynolds (Waterworld) og Kasdan (Whyatt Earp) en svo virtist sem Costner væri ómögulegt að velja almennilega bíómynd til þess að leika í.

Upp á síðkastið hefur hann verið að gera út á ímynd sína sem miðaldra kyntákn í rómantískum tilfinningavellum eins og Message in a Bottle, þar sem Paul Newman stal frá honum senunni, og For Love of the Game, sem er svo vond að það er enginn til þess að stela frá honum senunni. Þar áður lék hann í svipaðri mynd á móti Rene Russo um miðaldra golfspilara í tilvistarkreppu. Og þetta eru myndirnar, lamaðar, rómantískar vellur. Minnir myndaval Costners að sumu leyti á hörmulegt val Michael Caines, sem tókst næstum því að rústa góðum ferli með vondum myndum.

En í hverju ætti þá Costner að leika í staðinn? Svo virðist sem hann sé að finna svarið við því sjálfur. Hann leikur nú í sögulegri mynd um Kúbudeiluna sem heitir Þrettán dagar og hyggst ná aftur einhverju af fornri frægð með henni. Einnig hyggst hann leika í fyrsta sinn óþokka á móti Kurt Russell í mynd sem heitir því forvitnilega nafni Fimm þúsund kílómetrar til Graceland.

Costner hrósaði sér af því fyrir um ári í blaðaviðtali að hann fengi enn send bestu handritin í Hollywood fyrstur manna. Vel má það vera. En það þarf eitthvað mikið til þess að draga mann á næstu Kevin Costner-mynd.