[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Símastúlkan í álverinu gaf umsvifalaust samband við lagerinn þegar Valgerður Þ. Jónsdóttir spurði í grandaleysi eftir Óskari Áldal. Sjálfum var honum skemmt, en lét ekkert uppi um ástæðuna fyrr en augliti til auglitis. Maðurinn er Valgarðsson og hefur haga hönd.

ÓSKAR Valgarðsson, lagermaður í álverinu í Straumsvík, kveðst vera stórskrítinn en hafa þó alla tíð kappkostað að vera eðlilegur. Hann efast hins vegar um að sú viðleitni hafi borið árangur þegar hann hóf að kenna sig við ál og dal. "Áldal er listamannsnafn," segir hann hátíðlega um leið og hann, umbeðinn, sýnir blaðamanni rokka úr messing og kríur úr þorskbeinum, sem hann segist dunda sér við að búa til á gamals aldri.

"Áldals-nafnið er vitaskuld bara grín," segir hann síðan hlæjandi. Bætir við af stakri hógværð að sjálfur sé hann fjarri því að vera listamaður og sé í þokkabót hugmyndasnauður í meira lagi. Sem orkar að vísu tvímælis þegar verk hans eru skoðuð. "Ég er kannski svolítið laginn í höndunum eins og ég á kyn til," viðurkennir hann og nefnir til sögunnar nokkra ættingja sína norðan heiða, lífs og liðna.

Listhneigð og sérkennilegheit

"Listhneigð og alls konar sérkennilegheit eru mjög áberandi í ættinni. Móðurbróðir minn, Jón Björnsson heitinn, trésmiður á Dalvík, sem sumir höfðu á orði að væri skemmtilega galinn, smíðaði m.a. byssur af einstöku listfengi og eru þær nú afar eftirsóttar af byssusöfnurum. Mér þótti mikill fengur að einni slíkri, Drífu, sem systkini mín gáfu mér þegar ég varð fimmtugur. Þá var annar náskyldur mér kunnur af að falsa málverk frægra málara og gekk jafnvel svo langt að falsa peningaseðla. Upp um kauða komst fyrir rest og á Kjarval þá að hafa sagt að slíkur snillingur ætti ekki að dúsa í steininum heldur fá að njóta sín sem listamaður. Svo fór þó aldrei því þessi frændi minn var alla tíð mikill ógæfumaður."

Rokkur til Japan

Samtalið, sem upphaflega átti einkum að snúast um handverk Óskars, fer út um víðan völl. Eins og kríurnar hans og rokkarnir sem prýða nú mörg heimili og fyrirtæki hérlendis og í útlöndum. Einn messing-rokkurinn er meira að segja kominn til Japan. "Kunningi minn, Eyþór Ólafsson, sem selur Japönum fisk, hefur keypt margar kríur af mér og fært viðskiptavinum sínum að gjöf. Nýverið keypti hann rokk til að færa einum af forstjórum Mitsubishi-fyrirtækisins. Eftir því sem mér hefur verið sagt skipar rokkurinn nú heiðurssess á skrifstofu forstjórans," segir Óskar og býður upp á kaffi og Nóakonfekt í morgunsárið. Segir í gríni að ef lengra væri liðið á daginn hefði hann boðið upp á koníak í koníaksstofunni sinni. "Já, finnst þér ekki huggulegt að eiga sína eigin koníaksstofu ...?"

Ekki amalegt það. Stofan sú var fyrir ekki svo margt löngu tvö barnaherbergi. "Börnin þrjú, öll einstaklega vel heppnuð, þótt ég segi sjálfur frá, eru flogin úr hreiðrinu og því væsir aldeilis ekki um okkur hjónin hér í húsinu. Núna hef ég stóra vinnustofu í kjallaranum og hef rýmri tíma en áður til að sinna handverkinu. Reyndar segir konan mín, Kolbrún Karlsdóttir, að athafnasemin sé ekkert annað en ofvirkni á hæsta stigi."

"Týndi sér" í dalíum

Óskar verður hugsi smástund en segir síðan að kvillinn hafi áreiðanlega lagast töluvert síðan hann "týndi sér" í dalíunum um árið. "Ég sökkti mér niður í blómarækt og var ár eftir ár alltaf jafn barnslega stoltur af hundrað blómstrandi dalíum. Óskaplega tímafrek iðja og mikið nostur. Ég lét þó ekki segjast fyrr en konunni minni var nóg boðið og kvað upp úr með að hún hefði ekki gifst mér til að sjá mig aldrei öðruvísi en á fjórum fótum úti í garðhúsi."

Þar sem Óskar vildi ekki styggja frúna gerði hann sér lítið fyrir og gaf allar dalíurnar á einu bretti. Og sá ekkert eftir þeim, enda finnst honum félagsskapur Kolbrúnar mun skemmtilegri en dalíanna. Þau voru sextán ára þegar þau kynntust í Gagnfræðaskóla Austurbæjar fyrir tæpum fimmtíu árum og hafa verið saman allar götur síðan. Óskari finnst Kolbrún ennþá fallegasta kona í heimi og mikil sómakona í alla staði. "Ég hef bæði verið heppinn í einkalífi og starfi. Alltaf með gott og skemmtilegt fólk í kringum mig. Þótt skrítinn sé er ég trúlega allt í lagi líka - svona í stórum dráttum," segir hann. Til að réttlæta slíka fullyrðingu bætir hann snarlega við að afabörnin sín níu séu að minnsta kosti þeirrar skoðunnar.

Merkir menn og mannauður

En jafnan skiptast á skin og skúrir. Vinnuslys á auga á unga aldri varð í og með til þess að Óskar hætti sem vélvirki hjá Vélsmiðjunni Héðni. "Ég réðst þangað sem lærlingur sautján ára gamall. Auk þess sem slæm sjón var farin að há mér svolítið við vinnuna langaði mig að breyta til eftir tólf ára starf. Annars þótti mér afar gott að vinna í Héðni og þar kynntist ég mörgum skemmtilegum körlum."

Óskari er tíðrætt um ýmsa samferðamenn á lífsleiðinni. Segir að maður sé manns gaman og auður sérhvers fyrirtækis felist í mannauðnum. "Í Héðni varð ég þeirrar gæfu aðnjótandi að vinna með Sigurhans Hannessyni, lærðum silfursmið, sem fyrstur kynnti gassuðutæknina fyrir Íslendingum. Sigurhans var lærimeistari minn og var að mínu mati besti suðumaður á Íslandi. Hann og Jón heitinn, frændi á Dalvík, voru mennirnir sem kveiktu hjá mér löngun til að búa til fallega gripi. Jón Fjalldal heitinn frá Melgraseyri, er mér líka minnisstæður. Hann var einn af fáum sem lært höfðu búfræði í útlöndum, en var orðinn öldungur þegar hann réðst til starfa sem sópari og snúningsmaður hjá Héðni. Ég man ekki lengur hvers son hann var, en hann sagðist kenna

sig við fjall og dal eða landslagið þar sem hann áður bjó. Mörgum árum síðar þegar ég fór að fást við handverk í frístundum og hafði unnið í álverinu um árabil rifjaðist viðurnefni Jóns upp fyrir mér og þá fékk ég hugdettuna með álið og dalinn, nánar tiltekið Svarfaðardalinn þaðan sem ég er ættaður í móðurætt."

Þrír áratugir í álveri

Þegar Óskar hætti í Héðni réðst hann til starfa sem lagermaður í álverinu í Straumsvík. Eftir þrjátíu ár þar á bæ segist hann þekkja nánast hvern einasta starfsmann enda eigi allir erindi á lagerinn. "Sérstakt fólk," segir hann sæll á svip. "Já, alveg sérstakt fólk," endurtekur hann. "Fyrrum sjómenn, iðnaðarmenn og alls konar fólk, glaðlynt og skemmtilegt upp til hópa."

Tæpast er hægt að efast um að Óskar er félagslyndur maður. Enda segir hann að sér líði afar vel í margmenni og sé í eðli sínu mikill lífsnautnamaður. Á árunum áður vasaðist hann svolítið í félagsmálum járniðnaðarmanna. Sat í stjórn með harðjöxlunum eins og hann kallar suma stéttarbræður sína, en kveðst sjálfur ekki hafa verið með skapgerð til að standa í stórræðum.

Raular við rokkana sína

"Við hjónin ferðumst innanlands og utan, mér finnst gaman að hugsa um garðinn og sjá um viðhald hússins auk þess sem handverkið og stússið kringum það veitir mér ómælda ánægju," segir Óskar og bætir við að það sé hægt að gera allan skrattann og engin ástæða sé til að láta sér leiðast. Inntur nánar um lífsnautnir sínar upplýsir hann að dans og söngur sé þeirra á meðal. Hann dansar við Kolbrúnu en syngur með Karlakórnum Stefni og hlakkar mikið til þegar kórinn syngur með Kristni Sigmundssyni óperusöngvara í Borgarleikhúsinu 3. júní næstkomandi.

Svo raular Óskar líka stundum við rokkana sína í kjallaranum heima - þar sem kríurnar fæðast og vandað handverk lítur dagsins ljós.