HEIMILI Þráins Karlssonar og konu hans, Ragnheiðar Garðarsdóttur, á Akureyri líkist eins konar blöndu af minjasafni og listasafni. Við innganginn og í stiganum eru listaverk eftir Þráin úr tré og járni og þegar komið er inn í holið blasir við safn af fágætum munum frá fyrri tíð. Stofan er svo full af myndverkum eftir húsbóndann, á veggjum, í gluggakistum, á gólfi og borðum. Þar má sjá fugla úr steini, listaverk úr tré og járni af ýmsum stærðum og gerðum og myndverk unnin úr dýrabeinum.
Á stofugólfinu stóð skúlptúr, sem Þráinn hafði nýlokið við, sem hann kallar "Hrafna Óðins", unnið í tré og járn. Verkið hugðist hann gefa einni dóttur sinni í afmælisgjöf, en þau Ragnheiður eiga þrjár dætur, Kristínu, húsmóður á Akureyri, Rebekku rússneskunema, og Hildigunni leikkonu. Dæturnar eru nú flognar úr hreiðrinu og ef til vill er Þráinn að fylla upp í tómarúmið með listsköpun sinni og með því að sanka að sér gömlum áhöldum úr íslenskri alþýðumenningu, en sjálfur segir hann að minjasöfnunin sé orðin eins konar árátta hjá sér.
"Ég hef gaman af því að hafa gamla hluti í kringum mig. Minjasöfnunina má rekja til þess að ég átti brennimark föður míns og konan mín átti brennimark ömmu sinnar," sagði Þráinn er hann var spurður um upphafið að þessu sérstæða áhugamáli. "Ég átti líka kálskurðarjárn af Vestfjörðum og sauðskinnsskó, sem Sigurður Hjartarson, forstöðumaður Íslenska reðursafnsins, hafði gefið mér. Mér þótti þetta svo merkilegt að ég festi það upp á sandblásna fjöl.
Faðir minn, Karl Sigfússon, var rokkasmiður hér á Akureyri, kallaður "Kalli rokka" eða "Rokka-Kalli" og frá honum fékk ég ýmis konar áhöld sem hann hafði átt. Síðan hefur þetta undið upp á sig og smátt og smátt fóru vinir mínir að gefa mér ýmsa hluti og fólk víða að hefur verið að gauka að mér áhöldum og hlutum, sem það hefur átt í fórum sínum. Stundum hef ég farið í fjarlæga landshluta til að sækja hluti sem ég hef heyrt af og annað hefur komið upp í hendurnar á mér fyrir tilviljun. Eitt sinn var ég á reiðhjóli í Mývatnssveit og hjólaði þá óvart inn í brennustæði við Rauðhóla. Þar fann ég forláta hakkavél, sem er þeim mun fágætari fyrir það að hún er minni en þær sem voru venjulega notaðar á heimilum. Þessi er númer fimm en heimilishakkavélar voru venjulega númer átta eða tíu," og Þráinn bendir okkur á hakkavélina, sem hangir þarna á sínum stað á veggnum. "Allir þessir munir eiga sér sína sögu og við gætum verið í allan dag að rifja upp hvernig og hvaðan þeir eru komnir í mínar hendur. Elsti hluturinn er áreiðanlega þessi sylgja af hnakkgjörð, en ég gæti trúað að hún væri um 200 ára gömul."
Til heiðurs sauðkindinni
Listaverkin í stofunni eru af ýmsum toga og þarna eru áberandi fuglar úr steini, stórir og smáir. Þráinn er spurður nánar út í þessa listsköpun."Ég gerði fyrsta fuglinn fyrir þrjátíu árum og síðan hefur mér stöðugt farið aftur," segir listamaðurinn af meðfæddri hógværð. "Ég hef alltaf haft mikinn áhuga fyrir myndlist og lagt mig eftir að fylgjast með því sem er að gerast á því sviði. Svo spilar inn í að ég hef lært handverk og get fléttað það saman við þennan myndlistaráhuga.
Þegar ég var tilnefndur bæjarlistamaður hér á Akureyri 1995 til 1996 tók ég þá ákvörðun að hvíla mig alveg frá leikhúsinu, þótt ég hefði fyrst og fremst fengið þessa viðurkenningu fyrir störf mín sem leikari hér í öll þessi ár. Ég kom mér þá upp vinnuaðstöðu í tengslum við handverksmiðstöðina Punktinn, sem er merkileg stofnun hér í bæ, og vann þá eingöngu í handverki í eitt ár og tók það mjög alvarlega. Ég hafði hugsað mér að safna þessum verkum saman og halda sýningu, en svo merkilega vildi til að verkin seldust nánast öll áður en til sýningar kom og sum hafa verið sett upp í stofnunum og fyrirtækjum hér í bænum."
Innblásturinn að verkunum fær Þráinn úr ýmsum áttum og efniviðinn raunar líka. Til dæmis smíðaði hann skrifborðið, sem þarna stendur, úr hefilbekk föður síns, forláta smíði sem sómir sér vel í stofunni. Á einum veggnum hangir myndverk, gert úr rifbeinum af sauði, á grænum fleti.
"Það er búið að tala svo illa um sauðkindina á undanförnum árum að ég ákvað að búa til verk henni til heiðurs. Og ég nagaði beinin sjálfur," segir listamaðurinn og horfir stoltur á þetta einstæða handverk sitt.
Draumurinn rættist
Þráinn kveðst ekki fara oft út að borða á Akureyri, en segist þó vera sæmilega kunnugur veitingahúsinu Fiðlaranum á þakinu enda hélt hann þar upp á fimmtugsafmælið sitt á sínum tíma. Við ákveðum að fara fara þangað í mat og pöntum kjúklingalifur og kjúklingabringuterrin með truffluvinaigrette í forrétt og "Tóna fiðlarans" í aðalrétt, sem er valið sjávarfang og samanstendur af humar, hörpuskel, lax, túnfiski og rækjum, borið fram með hrísgrjónum og karrí-humarsósu. Þetta bragðast afskaplega vel og ekki spillir fyrir þægilegt umhverfi veitingahússins með útsýni yfir "Pollinn".Þráinn bendir mér út yfir spegilsléttan sjóinn og segir að þarna eigi hann oft sínar bestu stundir á sumrin. "Pollurinn er sannkölluð útivistarparadís og þar er ég með lítinn bát yfir sumartímann og á honum fer ég út í fjörð með stöng og uni mér tímunum saman."
Þráinn er fæddur og uppalinn á Akureyri og var til sjós á sínum yngri árum en lærði síðan vélvirkjun og vann við járnsmíðar í Slippstöðinn á Akureyri. "Ég segi stundum að ég hafi kennt Kristjáni Jóhannssyni allt sem hann kann - það er að segja í málmiðninni, en hann var lærlingur í Slippstöðinni og við unnum mikið saman á þeim árum. Síðan fór Kristján að syngja og ég sneri mér að leiklistinni. Reyndar var ég bara sextán ára þegar ég lék mitt fyrsta hlutverk hjá Leikfélagi Akureyrar og um svipað leyti fór ég á leiklistarnámskeið sem Jónas Jónasson útvarpsmaður hélt hér á þeim tíma. Í framhaldi af því gældi ég við þá hugmynd að fara í leiklistarskóla en aðstæður á mínu heimili leyfðu það ekki þá. Draumurinn um að verða leikari rættist engu að síður þótt ég færi aðra leið en þá hefðbundnu."
Þráinn lék fyrst í áhugamennsku með járnsmíðinni, en síðar sem atvinnuleikari frá því Leikfélag Akureyrar varð atvinnuleikhús. "Það má því segja að ég hafi verið að leika nánast óslitið í 44 ár. Ég var fyrsti fasti starfsmaðurinn sem ráðinn var við leikhúsið hérna upp úr 1970 og þá sem smiður. Á sokkabandsárum atvinnuleikhússins þurfti maður að gera allt mögulegt ásamt því að leika. Ég var í leiktjaldasmíðinni og smíðaði stundum leikmuni ef á þurfti að halda, svínslæri eða hvað það nú var sem vantaði. Ég fékk því góða innsýn í um hvað starfsemin í leikhúsinu snerist."
Alla sína starfsæfi sem leikari hefur Þráinn starfaði hjá Leikfélagi Akureyrar, ef frá eru talin tvö stutt tímabil: Hann starfaði við Þjóðleikhúsið veturinn 1979 til 1980 og var einn af stofnendum Alþýðuleikhússins og viðloðandi það um tíma.
"Þetta var róttækur hópur á þeim tíma og gaf sig út fyrir að vera það og því kannski kaldhæðnislegt að Alþýðuleikhúsið var stofnað á þjóðhátíðardegi Bandaríkjanna, 4. júlí 1975. Sérstaða Alþýðuleikhússins fólst þó aðallega í því að þar voru viðhöfð önnur vinnubrögð við leiksýningar en tíðkast hafði fram til þess tíma," segir hann þegar hann rifjar upp þá "gömlu góðu daga".
Þráinn fór aldrei í leiklistarskóla eins og hugur hans stóð til heldur segist hann hafa fengið leiklistaruppeldi sitt með góðu fólki í leikhúsinu. "Ég tel að það hafi verið farsælt nám og ég fékk inngöngu í Félag íslenskra leikara án nokkurra átaka þótt ég hefði ekki fengið þessa hefðbundnu leiklistarmenntun."
Þráinn hefur ekki tölu á öllum þeim hlutverkum sem hann hefur leikið á löngum leiklistarferli og þegar hann er spurður hinnar klassísku spurningar hvaða hlutverk sé honum minnisstæðast svarar hann:
"Leikarar eru oft spurðir þessarar spurningar og geta sjaldnast svarað henni. En vissulega væri það bara hroki að segja að manni þætti ekki vænna um eitt hlutverk frekar en annað. Af þeim hlutverkum sem ég hef verið að leika í seinni tíð get ég nefnt Froch fangavörð í Leðurblökunni. Það er hlutverk sem er yfirleitt leikið af gamanleikurum, en er sérstakt að því leyti að leikarinn fær nánast ótakmarkað frelsi í túlkuninni."
Þráinn bætir við að vegna þess hversu lengi hann hafi leikið við sama leikhúsið og hafi verið vel nýttur hafi leiklistarleg "flóra" hans verið afar fjölskrúðug: "Ég er dálítið sérstakt eintak að því leyti að ég hef fengið tækifæri til að leika virkilega skemmtileg gamanhlutverk og einnig hádramatísk hlutverk. Stundum hefur þetta sameinast í einni og sömu sýningunni, til dæmis í sýningunni "Barpar" þar sem við Sunna Borg lékum saman mörg ólík hlutverk og má kannski segja að þar hafi verið farið í gegnum allan skalann. Þarna lék ég allt frá tíu ára gömlum strák upp í gamalmenni á níræðisaldri og þetta er eiginlega þverskurðurinn af öllu því sem ég hef verið að gera á mínum leiklistarferli."
Skin og skúrir
"Árið 1986 átti ég þrjátíu ára leikafmæli og langaði til að halda upp á það með bravör og eftirminnilegum hætti. Böðvar Guðmundsson skrifaði fyrir mig einþáttung, sem heitir "Gamli maðurinn og kvenmannsleysið". Jafnframt hafði ég í huga að leikgera sögu eftir Böðvar úr bókinni "Sögur úr seinna stríði", sem heitir "Varnarræða mannkynslausnara", sem ég og gerði. Þegar nálgaðist frumsýningu fann ég að ég var ekki vel frískur og stundum leið yfir mig þegar ég reyndi mikið á mig. En ég frumsýndi verkið í desember 1986 og það gekk stórslysalaust.Eftir áramótin 1987 hófust svo æfingar á söngleiknum "Kabarett", sem Bríet heitin Héðinsdóttir setti hér upp. Þá var Pétur Einarsson leikhússtjóri hérna. Svo gerist það nokkrum dögum fyrir frumsýningu þegar ég er að syngja og dansa á æfingu að skyndilega dett ég alveg út í miðju atriðinu. Ég var fluttur á sjúkrahús og fékk þann úrskurð að þaðan færi ég ekki út í bráð. "Þú ert alvarlega veikur og skalt ekki láta þig dreyma um að taka þátt í leiksýningu á næstunni," sögðu læknarnir. Ég varð niðurbrotinn við þessi tíðindi og fannst ég vera búinn að eyðileggja tveggja mánaða vinnu fyrir þrjátíu manns.
Ég hugsaði ekkert um veikindin, en hugsaði með mér: Hvað er ég að gera samstarfsfólki mínu, hljómsveitinni, leikstjóranum, öllum leikurunum og leikhúsinu? Ég var gjörsamlega niðurbrotinn. Þá kemur Pétur Einarsson til mín, tekur í höndina á mér og segir: "Hafðu engar áhyggjur. Ég leik þetta hlutverk." Pétur hafði fylgst vel með æfingum og með örlitlum breytingum náði hann því að leika þetta hlutverk.
Þegar upp er staðið, og þrátt fyrir veikindin, er þetta eitt það ánægjulegasta sem mig hefur hent á öllum ferlinum í leikhúsinu. Sjálfur var ég sendur á sjúkrahús í London þar sem sett var í mig gervihjartaloka. Þá hafði komið í ljós að þetta var fæðingargalli. Aðgerðin heppnaðist afar vel og ég var fljótur að ná mér og hef verið við bestu heilsu síðan. En það sem mér þótti vænst um, fyrir utan auðvitað að verða frískur á ný, var að sýningin gekk ákaflega vel og mér tókst að leika í þremur síðustu sýningunum svo að Pétur kæmist til Kúbu á leiklistarráðstefnu þá um vorið. Þannig gat ég launað honum greiðann, en ég stend alltaf í þakkarskuld við Pétur fyrir að taka þá áhættu að ganga inn í hlutverkið með svo skömmum fyrirvara og bjarga heiðri mínum."
Á Tóbakströð
Eftir langt og farsælt starf hjá Leikfélagi Akureyrar er Þráinn, ásamt Sunnu Borg, orðinn eins konar persónugervingur fyrir leikhúslíf fyrir norðan, og enn eru þau Sunna að leika saman, nú í uppfærslu Leikfélags Akureyrar á "Tobacco Road" eftir Erskine Caldwell í leikgerð Jack Krikland og þýðingu Jökuls Jakobssonar. Þráinn fer með hlutverk Jeeter Lester og Sunna er í hlutverki systur Bessie Rice."Í uppfærslu Leikfélags Reykjavíkur fyrir rúmum þrjátíu árum fór Gísli Halldórsson með hlutverk Jeeters og ef ég man rétt var þar lögð meiri áhersla á kómíska þáttinn, þótt verkið sé öðrum þræði harmrænt. Hjá okkur eru dálítið aðrar áherslur enda má segja að hver kynslóð skoði þetta verk á sinn hátt. En ég leyfi mér nú samt að fullyrða að þessi uppfærsla okkar er mjög skemmtileg og þú ættir nú bara að koma og dæma um það sjálfur," segir leikarinn og svo fer að blaðamaðurinn ákveður að fara og sjá sýninguna.
Hann fær leyfi til að koma baksviðs fyrir sýningu og það er alltaf sérstök upplifun að fylgjast með leikurum búa sig undir leiksýningu. Stemningin er rafmögnuð og þarna eru þeir Þráinn og Aðalsteinn Bergdal að syngja saman einhverja stemmu, svona eins og til að skerpa röddina fyrir sýninguna. Þráinn virðist annars afslappaður, en segist þó vera dálítið kvíðinn innra með sér.
- Finnur þú einhvern mun á að leika núna og hér fyrr á árum? Er þetta erfiðara með aldrinum?
"Já, maður verður örlítið kvíðafyllri með aldrinum og ég hef verið að takast á við það nú í seinni tíð. Til dæmis hvað varðar þetta stóra hlutverk, sem ég er að leika núna; maður gleypir það ekki á einni nóttu. Þetta er erfitt hlutverk og líkamlega reynir það mikið á mig. En ég fékk mjög góðan undirbúningstíma og var búinn að pæla mikið í handritinu áður en við lásum það saman. Það voru líka mikil átök í kringum hlutverkið sem ég lék á móti Arnari Jónssyni í verkinu "Undir berum himni" sem við lékum á renniverkstæði hér í bænum. Það var mjög erfitt hlutverk og kostaði bæði svita og tár, en það er jafnframt eitt af eftirminnilegri hlutverkum sem ég hef leikið hin seinni ár."
- Tekur þú yfirleitt mark á leiklistargagnrýni? Hefur þér einhvern tíma sárnað gagnrýni í þinn garð sem þér hefur fundist ósanngjörn?
"Ekki minnist ég þess að hafa orðið ósáttur við dóm gagnrýnenda í minn garð. Sumir leikarar lesa aldrei gagnrýni eða segjast ekki gera það. En ég fer ekkert í launkofa með að ég les gagnrýni, en tek ekki mark á henni þannig að ég láti hana spilla fyrir mér eða fyllist ofmetnaði. Gagnrýni er hins vegar hluti af leikhúsinu og leikarar eru ekki á þeim stalli að ekki þurfi stöku sinnum að taka í kryppuna á þeim. Þeir mega ekki, frekar en aðrir, gleyma sér í eigin ágæti."
Þráinn er nú kominn í tilkomumikið gervi Jeeter Lester og ég spyr hann hvernig það sé með leikara; hvort þeir skipti um karakter í hvert sinn sem þeir fara í gervi persónunar sem þeir eru að leika hverju sinni. Er hann enn Þráinn Karlsson eða er persóna Jeeter Lester nú að taka yfir?
"Mér var ungum kennt að maður mætti aldrei gleyma sér í hlutverkinu. Maður yrði alltaf að leika á vitrænan hátt og aldrei kúpla sig svo gjörsamlega frá eigin persónu að hin persónan tæki yfir. Ef eitthvað óvænt kemur uppá í sýningunni verð ég að geta brugðist við því sem leikarinn Þráinn Karlsson."
- Hefur þú einhvern tíma lent í því að gleyma þér í hlutverkinu eða verið á mörkunum að sleppa þér lausum?
"Ég segi ekki að það hafi aldrei komið fyrir að ég hafi verið nálægt því að gleyma stund og stað og maður hefur svo sem heyrt aðra leikara segja frá slíku. Sjálfur hef ég hins vegar orðið fyrir skelfilegri reynslu á sviði, sem raunar var annars eðlis en þetta sem þú ert að spyrja um.
Við vorum að leika leikrit fyrir nokkrum árum sem heitir "Óvænt heimsókn". Þetta var dálítið sérkennileg sýning; Hallmar Sigurðsson setti þetta upp og Arnar Jónsson lék þar lögreglumann sem kemur inn á heimili og leysir þar ákveðna gátu.
Ég átti fyrstu innkomuna á sviðið, en áður var örlítill forleikur þar sem ein stúlka lék þar lítið þögult hlutverk. Ég var afskaplega vel fyrir kallaður að mér fannst og enginn sérstakur kvíði í mér eða neitt þess háttar. En þegar ég geng inn á sviðið og finn á mér ljósin þá hellist yfir mig slíkt óöryggi að mér er ekki lífsins leið að einbeita mér og mér finnst strax að ég sé að gera eitthvað rangt. Og þetta magnast eftir því sem líður á sýninguna og var orðið svo rosalegt að ég þorði varla að fara með rulluna mína og var farinn að hugsa setningarnar fram í tímann: Hvað segi ég þegar þetta gerist eða þegar hinn segir þetta...?
Dóttir mín, sem var á þessari sýningu, hugsaði með sér: Guð minn góður, er pabbi eitthvað veikur?
Þetta óöryggi fylgdi mér svo það sem eftir var á meðan við vorum að sýna þetta verk. Ég komst aldrei í takt við hlutverkið og þetta var orðin slík skelfileg martröð að ég ákvað með mér, að hvað sem um mig yrði þá skyldi ég ekki leika næsta ár. Og þegar ég var búinn að taka þessa ákvörðun og fá ársleyfi frá störfum þá gerist það, að ég fæ þetta yndislega tækifæri til að hvíla mig frá leiklistinni með því að verða útnefndur bæjarlistamaður. Í framhaldinu átti ég eitthvert besta ár ævinnar, safnaði kröftum, endurnýjaðist og kom fílelfdur aftur til baka í leikhúsið og hef ekki fundið fyrir neinu svona óþægilegu síðan. En ég neita því ekki að mér fannst dálítið skrýtið að fylgjast með því þegar farið var að frumsýna í leikhúsinu og ég var hvergi nálægur. En hefði ég ekki tekið þetta frí á þessum tíma er eins víst að ég hefði aldrei losnað frá þessu."
- Það fylgir auðvitað mikið andlegt álag því að þurfa stöðugt að koma svona fram fyrir fólk, kvöld eftir kvöld, ár eftir ár. Þú hefðir kannski verið betur settur í járnsmíðinni?
"Vissulega er það rétt og enginn skal gera lítið úr því að starf leikarans er erfitt. En ég segi ekki að starf járnsmiðsins hefði orðið neitt auðveldara. Ég sé alls ekki eftir að hafa valið þessa braut og myndi vafalaust breyta nákvæmlega eins mætti ég velja aftur."
Með þetta kveð ég leikarann og listamanninn Þráinn Karlsson enda sýningin að hefjast og þrátt fyrir kvíðann, sem hann nefndi, virðist hann öryggið uppmálað á sviðinu. Skal hér ekki farið nánar út í lýsingar á sýningunni sjálfri enda er þessi grein ekki leikhúsgagnrýni. Hins vegar sakar ekki að vitna í gagnrýni Sveins Haraldssonar í Morgunblaðinu svohljóðandi:
"Dramatísk áhrif eru stundum ótrúlega sterk og það er unun að fylgjast með leikurunum á sviðinu sem eru með á nótunum hvert sekúndubrot svo áhorfandinn sogast með inn í hringiðu tilfinninganna. Þráinn Karlsson og Hanna María Karlsdóttir eru óborganleg sem Lester-hjónin. Þráinn fer með mestan texta og það virðist vera honum leikur einn að túlka þetta geðþekka óhræsi sem karlinn er..."