Óskar Jónasson leikstjóri er nýkominn heim frá Noregi þar sem hann tók þátt í handritasmiðju undir leiðsögn nokkurra sjóaðra höfunda frá Bandaríkjunum og Bretlandi. Páll Kristinn Pálsson ræddi við hann.

"Ég var með tilbúið handrit og hafði sótt um framleiðslustyrk til Kvikmyndasjóðs, en ekki fengið," segir Óskar um tildrög fararinnar. "Ég hef reynslu af því að vinna með svokölluðum handritsráðgjöfum, sem fyrir misskilning eru oft kallaðir handritslæknar, en munurinn er að sá fyrrnefndi vinnur með manni í handritinu en lætur manni sjálfum eftir að gera breytingar á meðan sá síðarnefndi fær handritið og vinnur sjálfstætt við það án nokkurs samráðs við upprunalegan höfund. En þar sem ég fékk ekki grænt ljós hjá úthlutunarnefndinni langaði mig að fá utanaðkomandi viðbrögð við handritinu. Ég fékk upplýsingar hjá Kvikmyndasjóði um svona handritasmiðjur og leist best á þessa. Hún kallast Moonstone og er með höfuðstöðvar í Skotlandi, en á hins vegar ættir að rekja til Sundance Institute í Bandaríkjunum, sem stofnað var af Robert Redford . Ráðgjafarnir koma alls staðar að úr heiminum og yfirleitt er þetta haldið á afskekktum stöðum , fjarri

glysi og glaumi stórborganna. Núna var það í Noregi, í litlum bæ við botn Harðangursfjarðar, Ulvik heitir hann."

Til þess að komast á Moonstone þurfti Óskar að þýða handritið sitt á ensku og útbúa greinargóða umsókn; umsækjendur voru nokkur hundruð svo það er viss viðurkenning fólgin í því að komast í hóp þátttakenda, sem voru tólf, en ráðgjafarnir tíu. "Maður fékk svo hálfan dag í einrúmi með hverjum þeirra," segir Óskar . "Ég hafði alveg eins búist við því að þeir hefðu ekki lesið handritið, en það var öðru nær. Þeir voru mjög vel undirbúnir og með heilmikið af skrifuðum athugasemdum, þannig að sá tími sem maður hafði með þeim reyndist oft alltof stuttur og spjallið hélt áfram yfir kvöldmatnum og frameftir kvöldi. Og það var áberandi hvað þetta fólk var áhugasamt og svo kom mér á óvart að það talaði lítið út frá þumalputtareglunum, sem maður fær í kennslubókunum. Auðvitað voru allir með reglurnar á hreinu, en fólkið virtist eiga það sameiginlegt að vinna mikið út frá tilfinningu svo maður fann greinilega hvað handrit er persónulegt fyrirbæri. Og ráðgjafarnir voru langt frá því að vera sammála um hlutina," segir Óskar, sem taldi sig þegar eftir fyrsta daginn búinn að fá næg viðbrögð til að geta farið aftur heim og haldið áfram upp á eigin spýtur. "En það breyttist strax aftur næsta dag og svo gerðist það á hverjum degi að maður fékk eitthvað nýtt til að hugsa um."

Af þekktum höfundum sem leiðbeindu á Moonstone má nefna Susan Shilliday (Legends of the Fall, Girl Interrupted); Tom Rickman (Coalminer's Daughter); Julian Mitchell (Another Country, Wilde); Trevor Griffiths (Reds, Fatherland); Walter Bernstein (Failsafe, Yanks) og Troy Kennedy Martin (Kelly's Heroes, Italian Job).

"Auðvitað höfðar þetta fólk misjafnlega til manns," segir Óskar , "og mér fannst ég fá mest út úr Rubert Walters , en hann er meðal annars núna að vinna að mynd með Michael Mann og einnig skrifaði hann The Devil's Soldier fyrir John Woo , þar sem Tom Cruise verður í aðalhlutverkinu. Einnig kom Matthew Robbins, sem skrifaði t.d. Sugarland Express, fyrstu Spielberg myndina, með sterkt innlegg. En þegar upp var staðið hafði ég fengið heilmikið út úr þessu og mæli eindregið með því að leikstjórar og handritshöfundar sæki svona smiðjur."