Kate Winslet heldur til Indlands að finna sjálfa sig í mynd Jane Campions, Holy Smoke. Harvey Keitel leikur á móti Winslet í mynd Campions en hann lék áður í Piano fyrir leikstjórann.
Kate Winslet heldur til Indlands að finna sjálfa sig í mynd Jane Campions, Holy Smoke. Harvey Keitel leikur á móti Winslet í mynd Campions en hann lék áður í Piano fyrir leikstjórann.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Regnboginn frumsýnir nýjustu mynd Kate Winslet, Holy Smoke, sem Jane Campion leikstýrir.

Ruth ( Kate Winslet ) er ung og gullfalleg stúlka sem finnst eins og eitthvað vanti í líf sitt og í vestræna menningu ef því er að skipta. Hún ferðast til Indlands og kemst þar í snertingu við kennimann eða gúru.

Fjölskyldu hennar líst ekki á blikuna og ræður mann að nafni Waters ( Harvey Keitel ) til þess að fá hana til þess að snúa heim á ný.

Þannig er upphafið á nýjustu mynd Jane Campion , Holy Smoke, sem Regnboginn frumsýnir um helgina en með aðalhlutverkin í henni fara Kate Winslet, Harvey Keitel, Julie Hamilton, Tim Robertson, Sophie Lee og Pam Grier. Handritið gera Anna og Jane Campion en tónlistina semur Angelo Badalamente , sem kunnur er fyrir samstarf sitt við David Lynch .

Saga um unga konu sem fer til Indlands var í rauninni það eina sem Jane var búin að hugsa út í þegar hún nefndi hana við framleiðandann Harvey Weinstein hjá Miramax en hann beið ekki boðanna og ákvað að fjármagna hvað svosem úr henni yrði. Þannig var Jane í fyrsta sinn komin með fjármagn í mynd sína áður en hún var búin að skrifa handritið. Hún fékk systur sína, Önnu , í lið með sér en hún er einnig handritshöfundur og kvikmyndagerðarmaður (Loaded) og saman unnu þær að handritinu.

"Þegar við fórum að vinna við handritið, er haft eftir Önnu ," settumst við niður á kaffihúsum og fórum yfir málið rétt eins og aðalpersónurnar tvær í myndinni. Rifrildi okkar í fyrsta uppkastinu snérist um eilífðarmálin, er guð til, er guð ekki til? Úr samræðum þeirra fram og til baka varð til handrit myndarinnar. Ferlið tók fjögur ár en í millitíðinni eignaðist Jane barn og lauk við myndina The Portrait of a Lady.

Þær ákváðu að fá Harvey Keitel í lið með sér en hann fór með eitt aðalhlutverkanna í frægustu mynd Jane Campion , Piano. Þær hittu síðan Winslet í Evrópu og Jane sannfærðist fljótlega um að hún væri rétta leikkonan í hlutverk Ruth . Hins vegar vildi leikstjórinn fyrst athuga hvort hún gæti fundið óþekkta ástralska leikkonu í hlutverkið og hitti hundruð stúlkna um alla Ástralíu en fann ekki þá réttu að því er virðist.

Næsta skref var að leiða þau Winslet og Keitel saman og þegar systurnar sáu þau leika hvort á móti öðru vissu þær að leikaravandamálið var úr sögunni og þær gátu einbeitt sér að öðru.

Winslet er ein af efnilegri yngri leikkonum Bretlands í dag og hlaut heimsfrægð þegar hún lék í mynd James Camerons , Titanic. Síðan þá hefur hún getað valið úr kvikmyndahlutverkum í Hollywood en hún hefur kosið að fara aðra leið og leitað uppi verkefni sem henni finnst persónulega áhugaverð og skiptir þá ekki máli hvort hún fær fúlgur fjár fyrir leik sinn eða ekki.