MARCEL Oerlemans, sem lék með Fram í fyrra, er kominn með Admira Wacker upp í úrvalsdeildina í Austurríki . Oerlemans , sem var markahæstur Framara í fyrra með 5 mörk, hefur skorað 6 mörk í 7 leikjum síðan hann gekk til liðs við Admira Wacker síðla vetrar.
ELVAR Ingi Jónsson , sem lék einn leik með Fram í úrvalsdeildinni í fyrra, er genginn til liðs við 2. deildarlið HK en Fram fékk hann þaðan fyrir tveimur árum.
ANDRI Sigþórsson skoraði mark í þriðja leik sínum í röð gegn Fram. Hann skoraði tvö mörk í síðustu umferð 1997, þegar KR-ingar unnu 4:2 í Frostaskjóli.
AND R I skoraði síðan eitt mark í annarri umferð 1998, þegar KR vann á Laugardalsvellinum 24. maí, 2:0. Andri lék ekki gegn Fram í fyrra.
ERLA Hendriksdóttir og Edda Garðarsdóttir leika bikarúrslitaleik kvenna í knattspyrnu í Danmörku í dag - með liði sínu Fredriksberg, sem mætir Danmerkurmeisturum Fortuna Hjörring í Óðinsvéum.
ERLA er bjartsýn á sigur og segir að ef samherjar hennar ná að stöðva Helle Jensen og Christine Bonde, geti allt gerst.
ÞESS má geta að Erla gat ekki leikið með liðinu í deildarkeppninni um sl. helgi, þar sem hún meiddist á æfingu í samstuði við Eddu. "Ég er orðin góð og klár í slaginn," sagði Erla við Morgunblaðið í gær.
ROBERT Pires , leikmaður Mar seille , segist vera nærri samkomulagi við Arsenal um að leika með félaginu á næstu leiktíð. Sagði hann litlu skipta hvort Marc Overmars léki með Arsenal áfram eða ekki, en þeir leika í sömu stöðu.
JOHAN Micoud, sem verið hefur í Bordeaux, hefur gengið til liðs við Parma . Ítalska félagið greiddi 560 milljónir fyrir pilt, sem gerði um leið fjögurra ára samning.