BORGARSTJÓRI og fleiri skilja ekkert í því af hverju götur borgarinnar eru svo slæmar eftir síðast liðinn vetur og raun ber vitni. Þær eru í raun ekki verri en eftir hvern annan vetur undangengin ár. Ástæðan: nagladekkin. Gatnamálayfirvöld hafa ekki staðið sig í því að vinna gegn hinum gífurlega skaða sem nagladekkin valda, svo sem að kosta skattborgarana 100-300 milljónir eða svo árlega í Reykjavík, fyrir utan það heilsutjón sem uppspænd tjara úr malbikinu veldur. Og þetta er ekki nauðsynlegt. Nýjar gerðir af hjólbörðum, meðal annars kornadekk, blöðrudekk og fleiri tegundir, svo og fjögurra hjóla drifnir bílar eða bara sandpoki í skottið gera nagladekk, að minnsta kosti innan Reykjavíkursvæðisins, gjörsamlega óþörf. Vaknið af vondum draumi þið sem eigið að gæta velferðar gatnanna og skattborgaranna.
R.S.
Íslenskir karlmenn
VEGNA umræðna í sjónvarpsþættinum Kastljósi í ríkissjónvarpinu fyrir stuttu, um það hvort íslenskir karlmenn væru í tilvistarkreppu, langar mig að varpa fram einni spurningu: Er það þess vegna sem ungi maðurinn var látinn syngja í Evrópusöngvakeppninni í léreftspilsi?
Áslaug Kjartansdóttir,
Mýrarbraut 1,
Vík í Mýrdal.
Hraði og læti í verslunum
ÉG er fullorðin kona og versla mikið í Bónus. Mér finnst lætin og hraðinn vera orðinn svo mikill að það er erfitt fyrir fullorðið fólk að tína í poka. Er ekki hægt að hægja aðeins á?
E.G.
Þakkir til Ríkissjónvarpsins
KONA hafði samband við Velvakanda og langaði að koma á framfæri þökkum til þessarar einstaklega fallegu og hlýlegu konu sem stjórnar þættinum Úr Handraðanum. Hana langar að þakka henni fyrir að fá að sjá forna gleðigjafa, þá Hauk Morthens og Brynjólf Jóhannesson. Er ekki til meira efni með þessum gömlu góðu skemmmtikröftum? Þessir gömlu skemmtikraftar hafa hælana þar sem þessir ungu hafa tærnar. Það er miklu skemmtilegra að sjá þessa gömlu skemmtikrafta en þessar íslensku myndir. Ég vil endilega fá að sjá meira af þessu hornafólki.Ánægður áhorfandi.
Gangbraut í Breiðholtshverfi
BJÖRGVIN hafði samband við Velvakanda og vildi koma því á framfæri að það vantar tilfinnanlega gangbraut á gatnamótin hjá Jafnaseli og Breiðholtsbraut. Þar eru ljósin allt of stutt og mjög erfitt að komast yfir götuna.
Framhaldið verði þýtt
ÞEGAR ég sá smágrein í Morgunblaðinu um að skáldverkið "Börn Arbats" eftir Anatoli Rybackov, sem kom út 1989 hjá Máli og menningu í þýðingu Ingibjargar Haraldsdóttur, væri lengra fékk ég áhuga, eins og greinarhöfundur, á að framhaldið yrði þýtt, helst af sama frábæra þýðanda.Vona ég að Mál og menning og þýðingarsjóðurinn taki þetta til athugunar.
Hannes Flosason.
Ein spurning
HVERNIG í ósköpunum geta íslensk stjórnvöld leyft sér að agnúast út í mannréttindabrot annarra þjóða meðan gömul kona er leikin svo grátt sem staðreynd er í Kálfatjarnarmálinu í Reykjanesbæ?
Ásgeir Long.
Gullnisti týndist
GULLNISTI, egglaga og opnanlegt, týndist mánudaginn 8. maí, líklega í Kramhúsinu. Nistið er í langri keðju og á bakhlið er grafið HPC með skrautletri og inni í nistinu er gömul mynd af konu og hárlokkur. Nistið hefur mikið tilfinningalegt gildi fyrir eigandann. Skilvís finnandi hafi samband í síma 530-1613, 863-1968 eða 552-0007.
Skrautlegur hálsklútur tapaðist
MJÖG skrautlegur hálsklútur tapaðist laugardaginn 29. apríl sl. frá bílastæðinu á Drafnarstíg að Ránargötu 46. Skilvís finnandi er vinsamlegast beðinn að hringja í síma 561-1859 eða 434-7716.
Rauð ungbarnagleraugu töpuðust
RAUÐ ungbarnagleraugu töpuðust á Stór-Reykjavíkursvæðinu 19. apríl sl. Skilvís finnandi er vinsamlegast beðinn að hafa samband í síma 695-3013.
Umslag í óskilum
UMSLAG merkt Agnes fannst á Hofsvallagötu þriðjudaginn 16. maí sl. Upplýsingar í síma 551-3742.
Barnareiðhjól fannst
BARNAREIÐHJÓL fannst á víðavangi laugardaginn 13. maí sl. Upplýsingar í síma 553-4832.
Nett kvengleraugu töpuðust
NETT kvengleraugu í gulu gleraugnahúsi töpuðust rétt fyrir páska. Skilvís finnandi er vinsamlegast beðinn að hafa samband í síma 567-2205 eða 897-3373.