Brúará
Brúará
Á VORDÖGUM 2000 gengst Ferðafélag Íslands fyrir gönguferðum eftir fornum biskupaleiðum milli Skálholts og Þingvalla.

Á VORDÖGUM 2000 gengst Ferðafélag Íslands fyrir gönguferðum eftir fornum biskupaleiðum milli Skálholts og Þingvalla. Tilefnið er að þúsund ár eru liðin frá því að Íslendingar tóku kristna trú og af sama tilefni gefur Ferðafélag Íslands út litla bók um þessa leið og aðrar slóðir biskupa í vísitasíuferðum um nálæg héruð.

Höfundur bókarinnar er Guðrún Ása Grímsdóttir sagnfræðingur frá Apavatni í Grímsnesi. Bókin er væntanleg úr prentun á næstu dögum og fyrsti áfangi gönguferðar um Biskupaleið verður genginn sunnudaginn 21. maí. Þá verður farið sem leið liggur frá Skálholti að Apavatni og sagnir fortíðar rifjaðar upp um leið og göturnar.

Í fréttatilkynningu er vitnað í höfund bókarinnar og þar segir: ,,Alfaravegur á þingstað við Öxará lá frá Skálholti yfir Brúará á Spóastaðaferju. Þaðan norður fyrir Mosfell í Grímsnesi um mýrar og móholt, smálæki og velli milli Apavatns og Þóroddsstaða. Þá var stefnt á Ölduna undir austurbrúnum Lyngdalsheiðar og sveigt norður um Borgarásgil og Áfangamýri. Þaðan haldið upp á Heiðarbrún og stefnt á endann á Litla-Reyðarbarmi og farið eftir mörkuðum götum út heiðina norðaustanverða um flatmóa, lautadrög og smáþýfðar grámosaþembur hjá Beinavörðu og Biskupsbrekku." Þess verður freistað að fylgja þessari fornu leið eins og hægt er. Fararstjóri í þessum fyrsta áfanga verður Hjalti Kristgeirsson ritstjóri. Brottför er klukkan níu á sunnudagsmorgun og áætluð heimkoma um kl. 18. Ferðin kostar 2.600 krónur fyrir fullorðna. Annar áfangi verður genginn 1. júní og þriðji og síðasti áfangi 29. júní.