VIÐ áttum að koma í veg fyrir þetta mark, varnarmennirnir gátu hreinsað frá en hikuðu og það var afdrifaríkt.

VIÐ áttum að koma í veg fyrir þetta mark, varnarmennirnir gátu hreinsað frá en hikuðu og það var afdrifaríkt. Þetta var spurning um hvort liðið myndi skora á undan, ef við hefðum skorað fyrst hefðum við aldrei fengið á okkur mark," sagði Jens Martin Knudsen, þjálfari og markvörður Leifturs, við Morgunblaðið eftir leikinn á Akranesi.

"Það var erfitt að spila fótbolta í þessu roki en við reyndum það eftir megni. Skagamenn voru sterkir, en það erum við líka og við hefðum alveg eins getað unnið þennan leik, allavega náð jafntefli. Leikskipulagið gekk ágætlega upp hjá okkur, við hleyptum Skagamönnum ekki mikið innfyrir okkur, en spilið hefði mátt ganga betur og menn voru of fljótir að reyna sendingar inn í vítateiginn. En við erum með marga góða fótboltamenn og sterkan hóp og þetta á eftir að verða betra. John Petersen kemur til með að styrkja okkur heilmikið, hann var bara búinn að koma á eina æfingu fyrir þennan leik en það var mikilvægt að fá hann því það gefur okkur meiri möguleika í sóknarleiknum," sagði Jens Martin.