Davíð Oddsson forsætisráðherra og Milan Kucan, forseti Slóveníu, í gær.
Davíð Oddsson forsætisráðherra og Milan Kucan, forseti Slóveníu, í gær.
Opinberri heimsókn Davíðs Oddssonar forsætisráðherra til Slóveníu lauk í gær en þá átti hann m.a. fund með forseta ríkisins. Sigrún Davíðsdóttir fylgdist með heimsókninni og ræddi við forsætisráðherra.

LANDIÐ er ofboðslega fallegt og virðist þróaðra en ég átti von á," sagði Davíð Oddsson forsætisráðherra í Ljubljana, höfuðborg Slóveníu, í gær og bætti við að landið hefði ekki á sér sama blæ og mörg önnur fyrrum kommúnistaríki. Davíð er um þessar mundir staddur í opinberri heimsókn í Slóveníu, en kemur heim í kvöld. Í gærmorgun heimsótti forsætisráðherra Milan Kucan, forseta Slóveníu, og Jenez Podobnik, forseta þingsins, auk þess sem hann heimsótti höfuðstöðvar slóvenska verslunarráðsins.

Heimsókn forsætisráðherra ber upp einmitt þegar stefnir í að landið fái nýjan forsætisráðherra, Andrej Bajuk, í stað Janez Drnovsek, sem verið hefur forsætisráðherra síðan 1992. Í gær var þó enn ekki ljóst hvort og hvenær Bajuk tæki við en ljóst er að stjórn hans verður að öllum líkindum aðeins bráðabirgðastjórn, þar sem gengið verður til kosninga í haust. Ekki er þó um neinn stefnuágreining að ræða og ljóst er að stjórn Bajuks mun halda fast við stefnu núverandi stjórnar í efnahagsmálum og eins að hún muni stefna á aðild að NATO og Evrópusambandinu, ESB, við fyrsta tækifæri.

Fyrir Íslendinga á ferð í Slóveníu er ekki hægt annað en að taka eftir hve oft er minnst á að Íslendingar voru í hópi þeirra allra fyrstu til að viðurkenna Slóveníu í desember 1991. Í ferðinni hefur ekki verið haldin sú ræða af hálfu Slóvena að þessa hafi ekki verið minnst. Í gær lauk degi forsætisráðherra og fylgdarliðs hans með kvöldverði hjá Milan Kucan.

Góður hagvöxtur en verðbólga áhyggjuefni

"Umhverfið og bílarnir bera vott um velmegun, sem svipar til þess sem gefur að líta í landi eins og Ítalíu," sagði Davíð og sagði að heimsóknin hefði gefið gott tækifæri til að sjá hvað margt merkilegt hefði verið gert í Slóveníu á undanförnum árum. Hagtölur sýna að slóvenska hagkerfið nálgast nú fátækustu lönd ESB eins og Portúgal og Grikkland, en verðbólga er enn örlítið áhyggjuefni, hefur verið um 5 prósent. Hagvöxtur hefur undanfarin ár verið á bilinu 3-5 prósent.

"Það er athyglisvert að sjá hvað þeir binda opinberlega miklar vonir við að komast í ESB árið 2003, þó þeir taki undir það í einkasamtölum að vísast verði það síðar." Davíð benti á að í Slóveníu gætti sama kvíða og til dæmis í Póllandi um að ef loforð um skjóta aðild gengju ekki eftir og aðild drægist fram til 2007-8, væri hætta á að almenningur missti áhugann og töfin skapaði andúð á ESB meðal þeirra. Eins og er sýna skoðanakannanir að um 65 prósent slóvenskra kjósenda eru hlynntir aðild.

"Það er líka merkilegt að sjá hversu Slóvenar eru komnir vel á veg efnahagslega. Hlutabréfamarkaðurinn er reyndar vanþróaður og það er undarlegt miðað við að það eru 55 þúsund fyrirtæki í landinu. Við fengum að heyra það hjá forseta verslunarráðsins að slóvensk fyrirtæki leita gjarnan á erlenda hlutafjármarkaði og það er slæmt, því þá fæst engin mæling á því heima fyrir hvar fyrirtækin standa," sagði Davíð og benti á að þessi atriði væru kannski vísbending um að Slóvenum hefði ekki tekist nægilega vel að opna hagkerfið. Þeir væru því komnir aftur fyrir lönd eins og Tékkland og Pólland í röðinni yfir efnahagslega framvindu.

Tækifæri sem ekki má glata

Slóvenar eru mjög áhugasamir um NATO-aðild og af þeim áhuga hefur Davíð mjög fengið að heyra í heimsókninni. Það kemur reyndar ekki á óvart, því Slóvenar hafa iðulega rætt þetta áhugamál sitt við Davíð og aðra íslenska stjórnmála- og embættismenn á alþjóðlegum fundum um varnar- og öryggismál. "Gagnstætt því sem Pólverjar láta í veðri vaka, segja Slóvenar að þeim liggi ekki mikið á um NATO-aðild," sagði Davíð. "Þeir tala um að vonandi fái þeir aðild 2002-4; aðalatriðið sé að þessi þróun í átt til aðildar stöðvist ekki. Við höfum lýst yfir stuðningi við óskir þeirra og álítum að tækifæri til stækkunar NATO eigi ekki að glata. Aðild Slóveníu myndi einnig breyta þeirri aðstöðu sem nú er að ein NATO-þjóð, Ungverjaland, er eins og eyland innan um lönd, sem eru ekki í NATO." Davíð benti á að þótt Slóvenar væru vel á veg komnir með undirbúning að NATO-aðild ættu þeir enn eftir að skipuleggja heri sína upp á nýtt og vopnbúa þá.

Í viðræðum sínum við ráðamenn í Slóveníu hefur Davíð ekki farið varhluta af þeirri stjórnarkreppu sem ríkir í Slóveníu. Hann benti á að þrátt fyrir hana, væri engan bilbug á þeim að finna varðandi aðild að ESB og NATO og óvissan í innanríkismálum hefði engin áhrif á þau mál. Það væri reyndar athyglisvert að sjá að þrátt fyrir að bæði forsetinn og forsætisráðherrann væru sammála um að best væri að skýra línunarnar með því að efna til nýrra kosninga væri það ekki hægt þar sem þingið væri á móti því. Eins virtust það líka vera mistök að þingmenn væru 90 og fjöldinn stæði því á jafnri tölu. Heppilegra væri að hafa oddatölu eins og þekktist víðast annars staðar.

Áhugavert ferðamannaland

Þrátt fyrir óvissu í stjórnmálum þessa dagana sagði Davíð að það ríkti almennt bjartsýni í landinu enda mikill uppgangur í samfélaginu að mörgu leyti. Eitthvað hefði þó dregið úr erlendum fjárfestingum, sem huganlega stafaði af því að ekki hefði tekist að losa nógu snarlega um höft í bankakerfinu. Það hlyti líka að draga úr fjárfestingum ef hlutabréfamarkaðurinn væri ekki nógu virkur.

Í ferðinni hefur Davíð farið víða um landið, bæði verið á Miðjarðarhafsströnd Slóveníu og upp til fjalla. Fegurðin er mikil og Davíð benti á að líklega gerðu fæstir Íslendingar sér grein fyrir hvað Slóvenía væri fallegt land og hefði upp á mikið að bjóða. "Ég hef á tilfinningunni að Íslendingar hafi ekki tekið upp þráðinn í ferðamennsku til Slóveníu frá því sem var einu sinni. Þangað er margt að sækja, verðlag í meðallagi og allt er snyrtilegt og vel skipulagt."