LIONSKLÚBBURINN Fjörgyn í Grafarvogi er 10 ára um þessar mundir. Lionsfélagarnir hafa á undanförnum árum staðið fyrir afar öflugu starfi í Grafarvogi og víðar.
Eitt af aðalverkefnum klúbbsins hefur verið að styrkja Barnaspítala Hringsins. Á undanförnum fimm árum hefur Fjörgyn þannig gefið Barnaspítalanum fjölda gjafa til að bæta meðferð og umönnun veikra barna á Íslandi. Meðal gjafanna er fullkominn heilasíriti, öndunarvél fyrir nýbura og fyrirbura, hitakassi fyrir nýbura og fyrirbura, magaspeglunartæki, lungnaspeglunartæki, brunabað með fylgihlutum til að bæta brunameðferð barna, sýrustigsmæli til að meta vélindabakflæði, stafræna myndavél auk jólagjafa og margs annars.
Í tilefni af 10 ára afmælinu hefur Lionsklúbburinn Fjörgyn enn ákveðið að leggja Barnaspítala Hringsins lið. Að þessu sinni gáfu félagarnir ristilspeglunartæki til rannsókna á meltingarvegi barna. Verðmæti gjafarinnar er um 1,8 millj. kr. Verðmæti gjafa undanfarinna ára er yfir 15 millj. kr., segir í fréttatilkynningu frá Barnaspítala Hringsins.
Barnaspítali Hringsins þakkar Lionsklúbbnum Fjörgyn fyrir stuðninginn nú sem fyrr.