LISTAHÁTÍÐ í Reykjavík 2000 verður sett með formlegum hætti í Þjóðleikhúsinu á morgun kl. 13:30. Formaður fulltrúaráðs Listahátíðar, Björn Bjarnason, menntamálaráðherra, setur hátíðina, sem er nú haldin í 16. sinn.

LISTAHÁTÍÐ í Reykjavík 2000 verður sett með formlegum hætti í Þjóðleikhúsinu á morgun kl. 13:30.

Formaður fulltrúaráðs Listahátíðar, Björn Bjarnason, menntamálaráðherra, setur hátíðina, sem er nú haldin í 16. sinn. Fyrsta hátíðin var sett 1970 og er því hátíðin í ár jafnframt 30 ára afmælishátíð. Dagskráin er fjölbreytt og stendur hátíðin til 8. júní og lýkur með hátíðartónleikum í Laugardalshöll, þar sem Sinfóníuhljómsveit Íslands og einsöngvararnir Sigrún Hjálmtýsdóttir, Rannveig Fríða Bragadóttir, Kristján Jóhannsson og Kristinn Sigmundsson flytja óperuaríur og dúetta undir stjórn Giorgio Croci.

Á opnunarhátíðinni verða fyrstu tónleikar Tónskáldafélags Íslands í annarri af þremur tónleikaröðum, sem félagið efnir til á þessu menningarári með tilstyrk Menningarborgarinnar. Tónleikarnir bera yfirskriftina "Hvert örstutt spor og þar verða rifjuð upp sönglög sem frumflutt hafa verið á íslensku leiksviði allt frá aldamótum. Tónlistarstjóri er Jóhann G. Jóhannsson og umsjón með dagskránni hefur Guðjón Pedersen. Flytjendur eru Edda Heiðrún Backman, Marta Guðrún Halldórsdóttir, Steinunn Ólína Þorsteinsdóttir, Jóhann Sigurðarson, Ólafur Kjartan Sigurðarson og Örn Árnason.

Við opnunina flytur formaður framkvæmdastjórnar, Sveinn Einarsson, ávarp og síðan verða veitt verðlaun í smásagnakeppni Listahátíðar árið 2000. Það er Ríkisútvarpið sem býður fram verðlaunin í tilefni af 70 ára afmæli sínu, en auk verðlaunasagnanna þriggja koma níu aðrar út á bók á vegum bókaforlagsins Vöku-Helgafells.

Uppselt er á opnunartónleikana, en leikhústónleikarnir verða endurteknir í Þjóðleikhúsinu þriðjudaginn 23. maí.

Tónleikarnir eru einnig á dagskrá Reykjavíkur - menningarborgar Evrópu árið 2000.