RISAEÐLAN Sue var kynnt fyrir gestum Field safnsins í Chicago á miðvikudag og gerðu tugþúsundir manna sér ferð í safnið til að skoða stærsta og heillegasta steingerving sem fundist hefur af Tyrannosaurus rex. Risaeðlan var nefnd í höfuðið á Sue Hendrickson, áhugamanneskju um steingervinga, sem fann beinagrindina árið 1990 í Black Hills í Suður-Dakota.
Sue kostaði Field safnið 8,36 milljónir dollara, eða um 645 milljónir króna, á uppboði sem dregist hafði árum saman vegna lagadeilna. Þeim lauk með því að sambýlismaður Hendrickson var dæmdur til fangelsisvistar að því er BBC greindi frá. Til að valda þeim kostnaði leitaði safnið samstarfs við fyrirtækin McDonalds og Disney sem eiga nú einkarétt á afsteypum af beinum Sue.
Þegar risaeðlan var kynnt Chicagobúum á miðvikudag var um leið greint frá nokkrum vísindalegum uppgötvunum um Tyrannosaurus rex sem gerðar hafa verið á þeim þremur árum sem það tók að setja þessa 67 milljón ára risaeðlu saman, bein fyrir bein.
Ein þessara uppgötvana var óskabeinið. Þetta er í fyrsta skipti sem óskabein, sem nú finnst aðeins í fuglum, finnst í Tyrannosaurus rex og telst það spónn í ask þeirra sem telja risaeðlur skyldar fuglum. Þá fannst einnig í fyrsta skipti steingervingur ístaðs í Tyrannosaurus rex, en það er bein við hljóðhimnu sem aðstoðar við flutning hljóðs inn eftir eyranu.
"Þetta viðkvæma bein varðveitist hérumbil aldrei í steingervingum risaeðlna," sagði John Flynn yfirmaður jarðfræðideildar safnsins. "Þessi fundur auðveldar okkur að skilja þróun ístaðsins og heyrnar bæði hjá risaeðlum og fuglum."
Sérfræðingar segja Sue hafa verið frekar hæggenga. Gönguhraði hennar hafi verið um 10 km á klst, en á hlaupum hafi hún mest náð um 24 km hraða, sem er minna en áður var talið.
Þá benda stórar lyktarblöðkur til þess að risaeðlan hafi haft gott lyktarskyn og telja sumir sérfræðingar Tyrannosaurus rex hafa reitt sig meira á nasirnar en önnur skynfæri.
Hauskúpan vegur tonn
Hauskúpa Sue vegur um eitt tonn og er því of þung til að hægt sé að koma henni fyrir á beinagrind risaeðlunnar. Hauskúpan er þess í stað til sýnis í glerkassa í safninu eneftirlíking skreytir beinagrindina sjálfa.Sue er heillegasti Tyrannosaurus rex steingervingurinn sem fundist hefur til þessa. Ekkert varpar þó ljósi á hvort þessar risaeðlur voru rándýr eða hræætur og þá eru steingervingasérfræðingar heldur ekki vissir um kyn dýrsins.
Þetta er í annað skipti sem framlimir finnast af Tyrannosaurus rex og getur Sue einnig státað af lengstu tönninni, sem mælist 30 sm frá rót að enda. Þá geta gestir Field safnsins skoðað tölvuunnar myndir af hauskúpu hennar og handleikið afsteypur beina, auk þess sem sögu Sue og myndir má finna á Netinu.