ÍSLENDINGAR eru áberandi í nýjasta tölublaði breska tímaritsins Dazed and Confused. Söng- og leikkonan Björk er þar í aðahlutverki; prýðir forsíðu blaðsins sem einnig inniheldur langt viðtal við hana. Þar segir hún m.a. frá vinnunni við kvikmyndina Dancer in the Dark sem frumsýnd var á kvikmyndahátíðinni í Cannes í vikunni.
Á öðrum stað í blaðinu er viðtal við tónlistarmanninn Damon Albarn þar sem hann fjallar um kvikmyndina 101 Reykjavík en hann semur tónlistina í myndinni.
En það eru fleiri Íslendingar en Björk sem vekja áhuga blaðsins og er leikstjórinn Friðrik Þór Friðriksson þar í stóru hlutverki. Dazed and Confused valdi, í samstarfi við upplýsingvefinn Uprush, átta evrópska leikstjóra sem að þeirra mati hafa helst gert evrópska kvikmyndagerð að því sem hún er í dag. Í grein í blaðinu er Friðriki Þór skipað í hóp goðsagna á borð við Ítalann Bernardo Bertolucci, Bretann Mike Leigh, Þjóðverjans Wim Wenders, Júgóslavann Emir Kusturica, Peter Greenway, Pólverjann Roman Polanski og Bretann Ken Loach. Í grein um Friðrik í blaðinu er honum lýst sem guðföður íslenskrar kvikmyndagerðar, sem fyrstum manna tókst að festa á filmu "fegurð, menningu og önnur sérkenni Íslands". Þá er viðtal við Friðrik þar sem hann m.a. lýsir áhrifum Íslendingasagna á kvikmyndagerð, bæði sína eigin og á alheimsvísu.