"Stjarna er fædd" er umsögnin um Björk í frönsku dagblaði og grunntónninn í flestum dómum um myndina Dancer in the Dark, sem frumsýnd var í fyrrakvöld á kvikmyndahátíðinni í Cannes. Gagnrýnendur skiptast þó í tvö horn um gæði myndarinnar og það virðist veggur á milli þeirra, því ýmist rífa þeir hana niður eða hefja upp til skýjanna.
Það er athyglisvert að renna yfir dóma í frönskum fjölmiðlum. Þegar dómar frá fimmtán gagnrýnendum eru skoðaðir hafa þeir gefið þeim fimmtán keppnismyndum, sem sýndar hafa verið fram til þessa, alls sextán sinnum fullt hús stiga. Oftast hefur það komið í hlut myndarinnar "Yi Yi" eða fjórum sinnum. Það segir meira en mörg orð að Dancer in the Dark fékk fullt hús stiga hjá ellefu af þessum fimmtán gagnrýnendum.
Spenna í aðalkeppninni
Dómarnir eru misjafnari þegar litið er til annarra fjölmiðla. Danir halda vart vatni yfir myndinni og fær hún fullt hús stiga hjá Politiken, Bo Green Jensen hjá Weekend Avisen og flestum öðrum fjölmiðlum. Ítalska blaðið La Republica og Diario ABC frá Spáni gefa henni einnig fullt hús stiga. Gagnrýnandinn Derek Malcolm hjá Guardian fer varlegar í sakirnar og gefur henni miðlungsdóma.Í kvikmyndatímaritinu Screen er þessi söngvamynd Triers sögð fyrst til að skapa spennu og eftirvæntingu í aðalkeppninni og sagt er frá því í Moving Pictures að lögreglan hafi verið kölluð að hátíðarhöllinni til þess að halda aftur af markaðsfólki, sem ekki fékk aðgang að myndinni þrátt fyrir að vera með miða. Var sú ákvörðun tekin að blaðamenn hefðu forgang, þar sem ljóst væri að fullt yrði á sýninguna, og var baulað á þá þegar þeir gengu upp dregilinn í höllina.
Þegar ljóst varð að ekkert af fólkinu sem beið eftir aðgangi kæmist inn reyndu öryggisverðir að ýta því frá aðaldyrunum og upphófst mikill troðningur, enda þrjú hundruð manns sem biðu í röðinni og voru ekkert á því að láta vísa sér frá. Moving Pictures hefur eftir "sjóuðum" hátíðargesti um myndina: "Þetta er ekki meistaraverkið sem við biðum eftir, en hún vinnur líklega gullpálmann."
Við altari söngleikja í Hollywood
Dómurinn um myndina í blaðinu Screen er lofsverður og er henni sagt svipa til Brimbrots Triers."Í stað raddar Guðs krýpur Selma [sem leikin er af Björk] við altari söngleikja í Hollywood og leitar athvarfs í gildum þeirra," segir í dómnum. Því til stuðnings segir Selma á einum stað í myndinni: "Það gerist aldrei neitt hræðilegt í söngleikjum." En gagnrýnandinn Allan Hunter heldur áfram: "Opinberun myndarinnar er án efa frumraun söngfuglsins Bjarkar, sem virðist vaxa ásmegin í tignarleika og dýpt, eftir því sem líður á myndina." Ennfremur segir: "Þótt hún sé stundum dálítið vandræðaleg á það vel við persónuna. Síðar sýnir hún fram á að hún er fullfær um að standa undir hinum miklu kröfum sem gerðar eru til hennar. Hún er að öllu leyti jafn góð og [Emily] Watson var í framúrskarandi frumraun sinni í Brimbroti." Watson var sem kunnugt er tilnefnd til Óskarsverðlauna fyrir frammistöðu sína í þeirri áhrifaríku mynd Triers.
Gagnrýnendur skiptast í tvö horn
En gagnrýnendur skiptast eins og áður segir í tvö horn, og það er Derek Elley frá Variety, sem tekur sér sæti í skammakróknum. Hann rakkar niður flesta þætti myndarinnar og spáir því að hún að muni valda vonbrigðum hvað aðsókn varðar, þótt "[myndin] virðist til þess fallin að eignast einhverja aðdáendur, og gæti aflað tekna með snjallri markaðssetningu, sem snýst um aðalleikkonuna, íslensku söngkonuna Björk..." Það sem helst er gagnrýnt er myndatakan, en Trier notast við handheldar upptökuvélar, eins og í undanförnum myndum sínum. Auk þess þykir Catherine Deneuve ekki trúverðug í hlutverki verkakonu."Frammistaða Bjarkar er á stundum hrífandi, en oftast vandræðaleg," segir í dómnum og ennfremur að dálítið vanti hjá henni upp á leiklistargáfuna, sem Emily Watson notaði sér í Brimbroti. Þessi dómur er þó undantekning, svo mjög að það er umtalað, og þegar allt kemur til alls er ljóst að Trier hefur farið með sigur af hólmi í Cannes, hvort sem gullpálminn fellur honum í skaut eður ei. Hver reynist sannspár að lokum verður tíminn að leiða í ljós.