Keflvíkingar hófu leikinn undan rokinu en það voru þó gestirnir úr Kópavogi sem fengu fyrsta færi leiksins og það kom eftir aðeins rúmlega einnar mínútu leik. Ívar Sigurjónsson fékk boltann óvænt eftir mistök varnarmanna Keflvíkinga aðeins utan við markteigshornið hægra megin en skaut framhjá.
Keflvíkingar voru mun hættulegri í fyrri hálfleiknum og sérstaklega gerðu þeir Kristján Brooks og Hjálmar Jónsson varnarmönnum Blika lífið leitt. Kristján fékk gott færi á 7. mínútu þegar hann komst í gegn hægra megin en Atli Knútsson sá við honum og varði vel.
Gylfi Orrason dómari leiksins var ekki í nokkrum vafa þegar hann dæmdi vítaspyrnu á gestina á 14. mínútu. Boltinn var inni í vítateig Breiðabliks og menn höfðu spyrnt honum nokkrum sinnum upp í loftið. Þórarinn Kristjánsson tók við honum og ætlaði að skjóta þegar varnarmaður setti sólann á móti honum og í hann og Gylfi benti beint á vítapunktinn. Guðmundur skoraði úr vítinu en Atli var þó nærri búinn að verja.
Nokkrum mínútum síðar komst Kristján aftur inn fyrir vörn Blika en Sigurði Grétarssyni, þjálfara og aftasta varnarmanni gestanna, tókst að trufla hann þannig að skotið varð ekki eins gott og efni stóðu til og Atli varði vel. Eftir þetta dofnaði heldur yfir leiknum og sóknir Keflvíkinga misstu marks en Guðmundur fékk þó óvænt færi skömmu fyrir leikhlé en skaut framhjá af markteigshorninu.
Síðari hálfleikur hófst eins og sá fyrri, liðið sem lék á móti vindinum fékk fyrsta færið. Heimamenn komust þá upp að endamörkum vinstra megin, gáfu fyrir og Kristján kastaði sér fram og skallaði rétt framhjá stönginni.
Síðari hálfleikur hafði nær staðið í stundarfjórðung þegar Blikar fengu fyrsta færi sitt síðan á upphafsmínútum leiksins. Hjalti Kristjánsson tók eitt af fjölmörgum innköstum og kastaði langt inn í vítateiginn. Keflvíkingar skölluðu frá og rétt utan vítateigs var Salih Heimir Porca fyrstur að boltanum og skaut viðstöðulausu skoti í gegnum þvöguna og rétt framhjá markinu.
Mínútu síðar skallaði Þorsteinn Sveinsson rétt yfir mark heimamanna eftir aukaspyrnu Blika á hægri vængnum.
Blikar sóttu mun meira enda með rokið í bakið, en þeim tókst ekki að skapa sér fleiri umtalsverð færi, þau þrjú sem áttu eftir að sjást voru heimamanna. Fyrst náði Atli markvörður Blika að bjarga af tám sóknarmanna Keflvíkinga með því að skutla sér út í teiginn og ná boltanum sem var gefinn fyrir frá vinstri.
Á lokamínútunum fengu heimamenn tvö góð færi og átti Kristján þátt í þeim báðum. Fyrst komst hann upp að endamörkum vinstra megin, rétt utan markteigsins, og skaut í stað þess að gefa á samherja sem beið aleinn á vítapunktinum. Þegar nokkrar sekúndur voru eftir komst Kristján í gegn en Atli varði meistaralega.
Eins og áður segir var leikurinn ekki rismikill en sigurinn var sanngjarn enda sköpuðu Keflvíkingar sér mun fleiri markfæri en gestirnir. Vörn Keflvíkinga var nokkuð óörugg framan af leiknum en henni óx ásmegin er á leið. Liam O'Sullivan, Skotinn ungi sem nýkominn er til liðsins, var traustur. Hann er hávaxinn og sterkur í skallaboltum auk þess sem hann reyndi oftast að leika knettinum út úr vörninni af skynsemi.
Í síðari hálfleik, þegar Blikar reyndu hvað eftir annað að senda boltann inn á vítateig Keflvíkinga utan af vinstri vængnum, var Jakob Már Jónharðsson í essinu sínu og náði ósjaldan að þruma frá markinu, eða hreinsa eins og það er oftast kallað.
Á miðjunni var Gunnar Oddsson traustur og á vængjunum stóðu þeir Guðmundur Steinarsson og Þórarinn Kristjánsson sig ágætlega.
Hjálmar Jónsson átti einnig fína spretti og Kristján Brooks var sívinnandi og duglegur að skapa sér færi og hefði að ósekju mátt nýta eitt þeirra.
Atli Knútsson, markvörður Blika, var traustur og bjargaði því að ekki fór verr, varði nokkrum sinnum mjög vel og var öruggur í öllum aðgerðum sínum.
Sigurður Grétarsson notaði leikreynslu sína vel sem aftasti maður og á miðjunni átti Björn Jakobsson góðan leik, en hann kom snemma inná vegna meiðsla Hreiðars Bjarnasonar. Hann mætti þó reyna meira sjálfur, en í kringum hann og Kjartan Einarsson var mestallt spil Blikanna að þessu sinni. Best gæti ég trúað að Kjartan hefði nýst enn betur sem fremsti maður á miðjunni og Björn Jakobsson þá frammi með Ívari Sigurjónssyni.
Blikar reyndu allt of mikið að senda háa bolta inn á vítateiginn frá vængjunum, aðallega þeim vinstri. Það gekk ekki upp að þessu sinni.
Skúli Unnar Sveinsson skrifar