Að lokinni fyrstu sýningu á "Ferðum Guðríðar" í Minneapolis. Frá vinstri: Patrick Gribbin, faðir leikkonunnar, Bryndís Schram sendiherrafrú, dr. Örn Arnar, aðalræðismaður Íslands í Minneapolis og hjálparhella leikhópsins, Jón Baldvin Hannibalsson
Að lokinni fyrstu sýningu á "Ferðum Guðríðar" í Minneapolis. Frá vinstri: Patrick Gribbin, faðir leikkonunnar, Bryndís Schram sendiherrafrú, dr. Örn Arnar, aðalræðismaður Íslands í Minneapolis og hjálparhella leikhópsins, Jón Baldvin Hannibalsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
BRYNJA Benediktsdóttir leikstjóri er nýkomin heim eftir langt og strangt leikferðalag með leikrit sitt "Ferðir Guðríðar". Ferðin hófst um miðjan apríl þar sem sýnt var í tólf borgum Kanada og Bandaríkjanna og fór Tristan E.

BRYNJA Benediktsdóttir leikstjóri er nýkomin heim eftir langt og strangt leikferðalag með leikrit sitt "Ferðir Guðríðar". Ferðin hófst um miðjan apríl þar sem sýnt var í tólf borgum Kanada og Bandaríkjanna og fór Tristan E. Gribbin með hlutverk Guðríðar en ljósa- og aðstoðarmaður var Jóhann Bjarni Pálmason.

"Ferðir Guðríðar" fjallar um Guðríði Þorbjarnadóttur, sem flutti til Vesturheims í kringum árið 1005 og fæddi fyrsta barnið þar, Snorra Þorfinnsson.

Þrátt fyrir mikil ferðalög var Brynja ánægð með árangurinn. "Þetta var yndislegt ferðalag en mjög strangt, við vorum yfirleitt komin í hverja borg að morgni og þá var strax haldið í leikhúsið til að undirbúa sýningu kvöldsins en að morgni haldið af stað til næstu borgar," sagði Brynja. "Okkur fannst skemmtilegast að við hittum alltaf áhorfendur eftir sýningu því þeir fóru ekki strax og í Kanada var þetta oft í bland fólk af íslenskum ættum. Það var auðvitað mikil upplifun að fara í svona ferð þó ekki gæfist tími til að skoða sig mikið um.Við náðum þó að fara til Gimli og hitta fólk, sem talar enn íslensku og ótrúlegt er að verða vitni að því hve fólkið er bundið sterkum böndum við Ísland."

Að sögn Brynju undirbjó Svavar Gestsson ræðismaður ferðina mjög vel og var mikið um sjónvarpsviðtöl við höfund og leikara. Það var jafnvel talað um að hér væri á ferðinni leynivopn í umræðuna um það hvort Leifur Eiríksson hefði verið íslenskur eða norskur en sannarlega var Guðríður sjálf íslensk.

"Okkur tókst að sýna á öllum þessum stöðum og förum aftur er líður á árið því það er mikil eftirspurn en við verðum einnig hér í Skemmtihúsinu í sumar og Þórunn Lárusdóttir er að æfa upp hlutverkið," bætti Brynja við en fyrirhugað er að vera með sýningar í byrjun júní, um miðjan mánuð og í lok hans. Auk þess verður leikritið aftur sett upp í ágúst og september.

Hlutverkið er mikil áskorun

Saga Guðríðar er um margt sérstök en Brynja ætlar að gera sögu hennar enn meiri skil. "Þegar hún settist svo að á Íslandi og hafði komið börnum sínum til manns, hélt hún í suðurgöngu til að hitta páfann í Róm og segja honum sögu sína og frá landinu í vestri. Það mun ég taka fyrir næst," sagði Brynja.

"Það er mikil áskorun að leika svona stórt stykki þar sem taka þarf fyrir allt að tólf karaktera ásamt fleiri hljóðum og beita mikilli líkamstjáningu," sagði Þórunn Lárusdóttir, sem er að æfa hlutverkið til að leika hér á landi. Hún mun jafnvel einnig sýna í Bretlandi en verið er að undirbúa jarðveginn þar. "Mér hefur gengið ágætlega að æfa hlutverkið enda verið með það í kollinum nokkuð lengi. Það er nokkuð síðan við byrjuðum að æfa. En eftir að Brynja fór til Ameríku hef ég haft tíma til að velta hlutverkinu fyrir mér og þá hafa komið upp ýmsar hugmyndir, sem ég tel henta í leikritið. Núna erum við svo að æfa smáatriðin."