Dr. Vigfús Jóhannsson var kjörinn formaður Alþjóðasambands laxeldisframleiðenda til tveggja ára.
Dr. Vigfús Jóhannsson var kjörinn formaður Alþjóðasambands laxeldisframleiðenda til tveggja ára.
DR. VIGFÚS Jóhannsson, formaður Landssambands fiskeldis- og hafbeitarstöðva á Íslandi (LFH), var kosinn formaður Alþjóðasambands laxeldisframleiðenda til tveggja ára á aðalfundi sambandsins fyrir skömmu.

DR. VIGFÚS Jóhannsson, formaður Landssambands fiskeldis- og hafbeitarstöðva á Íslandi (LFH), var kosinn formaður Alþjóðasambands laxeldisframleiðenda til tveggja ára á aðalfundi sambandsins fyrir skömmu.

Aðalfundur Alþjóðasambands Laxeldisframleiðenda (International Salmon Farmers Association) var haldinn samhliða sjávarútvegssýningunni í Brüssel. Aðildarlönd sambandsins eru nú alls níu, Ástralía, Kanada, Chile, Færeyjar, Ísland, Írland, Nýja Sjáland, Noregur og Stóra-Bretland. Samtals framleiddu aðildarfélög sambandsins um 940 þús. tonn af laxi á árinu 1999 og voru verðmæti framleiðslunnar í fyrra um 340 milljarðar kr. Stærstu framleiðendurnir eru Noregur með um 462 þúsund tonn og Chile um 223 þúsund tonn.

Á aðalfundinum var fjallað um stöðu laxeldisins í dag og líklega þróun þess á næstu árum. Fram kom að árið 1999 hafi almennt verið mjög hagstætt í laxeldi víðast hvar og greinin væri að skila miklum hagnaði. Útlit er gott á þessu ári. Laxaverð er almennt hátt og útlit fyrir að það haldist hátt út þetta ár. Ástæður þessa góða árangurs má almennt rekja til þess að tekist hefur að koma í veg fyrir að sjúkdómar hefðu alvarleg áhrif í eldinu auk þess sem mjög lítið af fiski hefur tapast úr kvíum á undanförnum árum. Þessi árangur byggist m.a. á starfi Alþjóðasambandsins sem hefur beitt sér fyrir því að öll löndin við N-Atlantshaf vinni eftir mjög ströngum reglum sem miða að því að laxeldi verði áfram rekið í góðri sátt við náttúruna. Þessar reglur verða unnar í samstarfi við NASCO (Laxaverndunarsamtök þjóða við N-Atlantshaf) og er reiknað með að reglurnar verði samþykktar á fundi samtakanna í byrjun júní n.k.

Á fundinum í Brüssel voru kynntar fyrstu niðurstöður markaðsrannsókna sem Alþjóðasambandið hefur staðið fyrir í samvinnu við Roche Vitamins Europe Ltd. Þessari rannsókn var beint að mörkuðum fyrir lax í Þýskalandi, Englandi og Frakklandi. Markmiðið var að leita leiða til vinna nýja markaði auk þess að þróa frekar núverandi laxamarkaði í Evrópu. Næsta stóra verkefni Alþjóðasambandsins á þessu sviði er sambærileg rannsókn á laxamörkuðum í N-Ameríku.

Framkvæmdastjóri Alþjóðasambandsins er Peter Shelley. Alþjóðasambandið mun á næstu tveimur árum hafa aðsetur á tveimur stöðum, á Íslandi (skrifstofa LFH) og í Ástralíu.