Alan Greenspan, seðlabankastjóri Bandaríkjanna, ásamt Bill Clinton forseta í Rósagarði Hvíta hússins í gær. Greenspan lýsti yfir fullum stuðningi við þá stefnu forsetans að veita ætti Kína sömu viðskiptafríðindi og nær öll önnur ríki njóta í Bandaríkjunum.
Alan Greenspan, seðlabankastjóri Bandaríkjanna, ásamt Bill Clinton forseta í Rósagarði Hvíta hússins í gær. Greenspan lýsti yfir fullum stuðningi við þá stefnu forsetans að veita ætti Kína sömu viðskiptafríðindi og nær öll önnur ríki njóta í Bandaríkjunum.
TVÆR mikilvægar þingnefndir í Bandaríkjunum samþykktu í gær með miklum meirihluta að mæla með tillögu um að veita Kína sams konar frjálsræði og tollfríðindi í viðskiptum við Bandaríkin og flest önnur ríki heims njóta nú.

TVÆR mikilvægar þingnefndir í Bandaríkjunum samþykktu í gær með miklum meirihluta að mæla með tillögu um að veita Kína sams konar frjálsræði og tollfríðindi í viðskiptum við Bandaríkin og flest önnur ríki heims njóta nú. Talið er víst að tillagan verði samþykkt í öldungadeildinni en í fulltrúadeildinni eru skoðanir mjög skiptar og hart deilt um málið í báðum flokkum. Atkvæði verða greidd í þingdeildunum í næstu viku.

Fjármálanefnd öldungadeildarinnar samþykkti tillöguna með 18 atkvæðum gegn einu, í fjárlaganefnd fulltrúadeildarinnar fóru leikar 34-4. Undanfarin 20 ár hefur á hverju ári þurft að samþykkja sérstaka tillögu um þessi fríðindi með tilliti til Kína.

Bill Clinton Bandaríkjaforseti fagnaði niðurstöðunni í gær en hann hyggst ávarpa þjóðina á sunnudagskvöld til að reyna að afla aukins fylgis við tillöguna. Forsetinn er ákafur talsmaður aukins viðskiptafrelsis þótt veruleg andstaða sé við þau sjónarmið innan flokks demókrata. Clinton sagði að þingmenn gætu með afstöðu sinni átt sinn þátt í að ákveða hvort Kína yrði "samstarfsaðili eða óvinur" í framtíðinni. Ef tillagan yrði felld myndi slík niðurstaða auka óstöðugleika í samskiptum Kína og Taívans og almennt í heimsmálum.

Alan Greenspan seðlabankastjóri, sem að jafnaði tjáir sig ekki um deilur af þessu tagi, lýsti í gær yfir eindregnum stuðningi við að viðskiptin við Kína yrðu færð í eðlilegt horf.

Meðal repúblikana eru margir andvígir því að Kína fái umrædd fríðindi og benda á að einræðisstjórn kommúnista brjóti mannréttindi á borgurum landsins, selji árásargjörnum ríkisstjórnum flugskeyti og vinni oft gegn stefnu Bandaríkjamanna á alþjóðavettvangi. Mikilvægara er að margir demókratar eru einnig á móti því að liðka fyrir innflutningi á kínverskum vörum vegna þess að verkalýðsfélögin, sem eru meðal bakhjarla margra demókrataþingmanna, eru á móti innflutningnum og segja að ódýr, kínversk vara geri innlenda vöru ósamkeppnishæfa. Fjöldi manna muni því missa vinnuna.

Segja aukin viðskipti bæta kjör og mannréttindi

Stuðningsmenn aukinna viðskipta fullyrða á móti að í staðinn muni bandarískir neytendur njóta lækkaðs vöruverðs og bandarísk fyrirtæki, m.a. á sviði landbúnaðar og fjarskipta, geti haslað sér völl á kínverskum markaði ef gagnkvæmt viðskiptafrelsi verði tryggt. Því nánari sem tengsl kínversks samfélags verði við umheiminn þeim mun meirilíkur séu á að kjör Kínverja batni, lýðræðisþróun festi rætur og mannréttindi verði tryggð.

Repúblikaninn George Bush, væntanlegur forsetaframbjóðandi, hefur mælt eindregið með samþykkt tillögunnar og er talið ljóst að afstaða hans hafi verið mikilvægur stuðningur fyrir Clinton í málinu. Al Gore varaforseti, líklegur frambjóðandi demókrata, hefur ekki verið jafnákveðinn í stuðningi sínum enda á hann mikið undir stuðningi stéttarfélaganna.

Verði tillagan samþykkt á Bandaríkjaþingi er talið víst að niðurstaðan auki líkurnar á að Kína fái aðild að Heimsviðskiptastofnuninni, WTO. Kínverjar og fulltrúar Evrópusambandsins hófu í gær viðræður til að finna lausn á deilum um skilyrði fyrir aðild Kínverja að WTO.

Talsmaður kínverskra stjórnvalda fagnaði í gær niðurstöðunni en andmælti einnig að þingmenn repúblikana skyldu beita sér fyrir að settar yrðu reglur til að hamla gegn skyndilegri aukningu á vöruinnflutningi og að stofnuð yrði sérstök nefnd til að fylgjast með ástandi mannréttindmála í Kína. "Báðir aðilar hagnast á því að veita Kína viðvarandi viðskiptafríðindi, " sagði talsmaðurinn, Zhang Qiyue. "Hér er ekki um að ræða einhliða gjöf af hálfu Bandaríkjamanna til Kínverja," sagði hún og kvaðst vona að þingið sýndi visku og leysti fljótlega deiluna um viðskiptafríðindin.

Afríkuþjóðir fá fríðindi

Clinton forseti undirritaði í gær lög sem munu auðvelda Afríkuríkjum sunnan Sahara og þjóðum í Karíbahafinu að selja vörur sínar í Bandaríkjunum. Lagasetningin hefur verið til umfjöllunar í fimm ár í þinginu en var loks samþykkt með miklum meirihluta í liðinni viku. Felldir verða niður tollar á fatnaði sem er framleiddur í löndunum og er talið að árlegur útflutningur Afríkuþjóða á þessum varningi til Bandaríkjanna geti aukist úr 250 milljónum dollara, um 19 milljörðum króna, í 4,2 milljarða dollara.

Washington, Peking. AP, AFP, Reuters.