[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
BJÖRN Bjarnason fjallar á vefsíðu sinni um MBA-nám við Háskóla Íslands og skólagjaldaumræðuna, sem m.a. var fjallað um í síðasta Reykjavíkurbréfi.

BJÖRN segir: "Staðgengill minn Sturla Böðvarsson samgönguráðherra þurfti í lokaviku þingsins að svara fyrirspurn frá Svanfríði Jónasdóttur, þingmanni Samfylkingarinnar, vegna þeirra áforma Háskóla Íslands að bjóða MBA-endurmenntun á vegum viðskiptadeildar sinnar og taka fyrir það há skólagjöld, eins og málið hefur verið kynnt af hálfu háskólans."

Fjármögnun háskólastigsins

OG ÁFRAM heldur Björn: "Ég hef oft áður vikið að skólagjöldum og umræðum um þau hér á þessum síðum mínum og raunar einnig í ræðum auk þess sem fyrir skömmu var efnt til norrænnar ráðstefnu hér á landi til að ræða fjármögnun háskólastigsins, þar sem umræður snerust að nokkru um skólagjöld. Fyrr á því þingi, sem nú er lokið í bili að minnsta kosti, var rætt um MBA-námið í Háskóla Íslands og fjármögnun þess. Ekkert nýtt kom fram í umræðunum núna enda hefur háskólaráð ekki lokið við að skilgreina, hvernig það lítur á MBA-námið og hvaða stöðu það hefur gagnvart háskólalögunum.

Eins og eðlilegt er þegar stjórnmálamenn ræða þessi mál, skoða þeir þau út frá sínum sjónarhóli og setja upp hin flokkspólitísku gleraugu. Ég ræð það af frásögn Morgunblaðsins, að Össur Skarphéðinsson, nýkjörinn formaður Samfylkingarinnar, hafi gert þetta, því að eftir honum er haft, að gjá sé að myndast milli stjórnarflokkanna vegna skólagjalda í HÍ, Sjálfstæðisflokkurinn sé að gera tilraun til að smygla skólagjöldum inn bakdyramegin og innleiða einkavæðingu í skólakerfið.

Lítum á þessa staðhæfingu flokksformannsins betur. Ef hann er á móti einkavæðingu í skólakerfinu, ætti hann að beina spjótum sínum gegn Samvinnuháskólanum á Bifröst, Háskólanum í Reykjavík og Listaháskóla Íslands. Þetta eru allt einkaskólar, sem hafa komið til sögunnar og verið að festast í sessi undanfarin ár og fengu skýrar lagalegar forsendur með nýju háskólalöggjöfinni, sem tók gildi 1. janúar 1998. Í þessum skólum eru skólagjöld. Hafa verið pólitískar deilur um stofnun þeirra og starfsemi? Ég hef ekki orðið var við það og ég skorast síður en svo undan ábyrgð á því, að þessir skólar fái öruggan starfsgrundvöll."

Ekki Sjálfstæð- isflokkurinn

LOKS segir Björn: "Hið athyglisverða við afstöðu þeirra, sem leggjast gegn því, að HÍ skilgreini MBA-nám sitt sem endurmenntun og láti reglur hennar gilda um greiðslu kostnaðar vegna námsins, er, að þeir kjósa að beina gagnrýni sinni á rangan aðila. Það er ekki með nokkru móti unnt að færa rök fyrir því, að Sjálfstæðisflokkurinn eða ég sem menntamálaráðherra hafi átt frumkvæði að þessu nýmæli í starfi Háskóla Íslands."