GRAHAM Taylor, knattspyrnustjóri Watford, segir að Heiðar Helguson ætli að vera um kyrrt hjá félaginu þó svo að það hafi fallið í 1. deildina. Sögusagnir hafa verið á kreiki um að Heiðar myndi yfirgefa Watford í kjölfar falls félagsins úr úrvalsdeildinni en Taylor hefur það eftir Heiðari að hann ætli að standa við þriggja ára samning sinn og vonast eftir því að félagið selji sig ekki.
Heiðar, sem er 22 ára gamall, er dýrasti leikmaður félagsins frá upphafi en hann kostaði félagið 180 milljónir er hann var keyptur frá Lilleström. Hann stóð sig mjög vel í þeim 14 leikjum sem hann lék með Watford á tímabilinu, varð markakóngur liðsins með 6 mörk og komu þrjú þeirra gegn ekki ómerkari félögum en Manchester United, Arsenal og Liverpool.