Anna Þorbjörg Sigurðardóttir fæddist í Reykjavík 18. september 1900. Hún lést á hjúkrunardeild Hrafnistu í Hafnarfirði 6. maí síðastliðinn og fór útför hennar fram frá Fossvogskirkju 16. maí.

Mig langar með nokkrum orðum að minnast Önnu, föðursystur minnar, með þakklæti til Guðs fyrir að hafa átt hana sem frænku svo lengi sem ég man eftir mér.

Þegar ég var lítil hittumst við oft á sunnudögum heima hjá afa og ömmu, systkini pabba með fjölskyldur sínar. Þar áttum við frændsystkinin ljúfar og góðar stundir. Árið 1933 fluttumst við systurnar með pabba og mömmu til Akureyrar og bjuggum þar í sex ár, en fluttumst svo aftur til Reykjavíkur 1939. Elsta systirin var þá gift á Akureyri svo við tvær yngri systurnar fluttum aftur suður með foreldrum okkar. Við urðum þeirrar ánægju aðnjótandi að fá leigða íbúð á Vífilsgötu 15, en þá áttu Anna og Þorkell ásamt börnum sínum heima neðst á Bergþórugötunni svo það var stutt að skreppa til Önnu frænku. Það fannst móður okkar ánægjulegt, því þær voru ekki bara mágkonur heldur góðar vinkonur. En það var ekki langur tími sem þær nutu samvista því í desember 1940 lést móðir okkar, þá tæplega 51 árs að aldri. Kom það þá í minn hlut að vera heima við í eins konar húsmóðurhlutverki, en pabbi og Kristín, eldri systir mín, unnu bæði í prentsmiðju. Ég var þá aðeins 16 ára og saknaði mömmu afskaplega mikið. Ég vissi lítið um matargerð og annað. Þá var það ómetanlegt að geta skroppið til Önnu frænku sem kenndi mér svo margt og fræddi mig. Ég veit ekki hvernig það hefði orðið ef ég hefði ekki átt hana að.

Síðar, þegar pabbi gifti sig aftur og mér auðnaðist að fara í húsmæðraskóla Reykjavíkur, var það hápunkturinn hjá okkur þegar við vorum búnar að undirbúa mikla veislu með alls kyns kræsingum að bjóða í mæðraboð. Þá gat ég ekki hugsað mér aðra en Önnu frænku sem komið gæti í boðið í stað móður minnar. Ó, hvað ég var stolt af henni frænku minni þegar hún kom til þessarar veislu uppábúin í íslenska búningnum.

Ég var ekki í fastri vinnu á þessum árum. Fór ég þá oft í hús til frændfólks og vann við saumaskap og annað. Oft bað Anna mig að koma og vinna fyrir sig, t.d. að þvo þvottinn með sér eða gera við föt. Þar lærði ég að bæta og gera við fatnað sem alltaf kom sér vel.

Meðan við systurnar héldum heimili með pabba kom það fyrir að Anna og Þorkell voru með pabba og Stefáni bróður sínum og konu hans á ferðalögum að sumri til. Þá var Kristín, yngsta dóttir Önnu og Þorkels, eða Stína, hjá okkur á meðan. Við höfðum mikla ánægju af því. Einu gleymi ég ekki, hvernig Stína fór fallega með bænaversin á kvöldin, allar bænirnar sem mamma hennar hafði kennt henni.

Það var auðfundið hve mikla alúð Anna hafði lagt í að kenna litlu dóttur sinni. Þannig urðu þessar stundir með Stínu mér líka heilagar.

Anna var ung að árum þegar hún gerðist meðlimur í KFUK eins og móðir hennar og eldri systir. Þar mætti hún á hátíðarstundum, og meðan hún gat kom hún þegar basar var haldinn til að leggja félaginu lið með fjármunum. Síðustu árin hefur hún verið elsta félagskonan okkar.

Í gegnum öll árin var gott að heimsækja Önnu og alltaf varð maður að drekka kaffi. Eftir að hún fór á Hrafnistu í Hafnarfirði hafði hún eldunaraðstöðu í herberginu sínu og alltaf tilbúin með kaffi þegar við systurnar komum í heimsókn. Þegar hún var farin að missa kraftana fannst okkur alveg óþarfi að fá kaffi. Þá sagði hún við mig: "Viltu ekki laga handa okkur kaffi?" Ég sagði það alveg óþarft. Við þyrftum ekki kaffi.

Þá sagði hún: "Borga mín, ertu orðin svona löt að þú nennir þessu ekki?" Svo auðvitað hitaði ég kaffi og drakk það með ánægju. Þannig var gestrisnin alltaf í fyrirrúmi. Síðasta skiptið sem ég heimsótti hana fór ég með Ingu dóttur hennar og þá var hún komin á sjúkradeildina. Inga var búin að gefa okkur kaffi. Þá fekk ég að eiga heilaga stund með þessari kæru frænku. Þá las ég fyrir hana úr Guðs orði og bað með henni og fyrir henni og öllum hennar ástvinum. Og enn steig upp þakklæti til Guðs míns og frelsara að hafa notið leiðsagnar hennar og kærleika.

Guð blessi ástvinina alla. Drottinn gaf og Drottinn tók. Lofað veri nafn Drottins.

Vilborg Jóhannesdóttir.

Vilborg Jóhannesdóttir.